Fregnir bárust um það í morgun að Hálslón væri nú yfirfullt og farið að leka. Sem kunnugt er þýðir það að Jökla „fer á yfirfall“ eins og sagt er. Tekur þá að mestu fyrir veiði í ánni.
Eftir sem áður eru hliðarárnar eins og Laxá og Kaldá veiðanlegar, en allur þorri veiðinnar kemur úr Jöklu sjálfri þannig að þetta er alltaf högg fyrir leigutakann, ekki síst vegna þess að það er aldrei að vita hvenær hið bölvaða yfirfall brestur á. Þetta er sérstaklega svekkjandi í ár vegna þess að góð veiði hefur verið í Jöklu í sumarr, skv tölum angling.is frá 31.8 voru komnir 740 laxar á land, miðað við 540 laxa heildartölu í fyrra. Síðan eru liðnir 5 dagar og áin mögulega náð 800 löxum áður en gruggið tók yfir.
Svo er það Blanda sem hefur einnig þessa hengingaról hangandi yfir sér, hún hefur verið í mikilli lægð síðustu árin, en verið að sýna merki um bata í sumar. Skv tölum angling.is frá 31.8 höfðu þá veiðst 566 laxar, en allt síðasta sumar, eða fram að yfirfalli var aflinn einungis 418 laxar.