Sjóbleikjan og sjórinn

Sjóbleikjan er spennandi sportfiskur.

VoV greindi frá göngum sjóbleikju við strendur landsins í nýlegri frétt. Nefndum dæmi m.a. frá Barðaströnd, sunnanverðum Vestjörðum og austurhluta Eyjafjarðar. Þessi frétt hefur vakið nokkra athygli og umtal. Skal nú málið aðeins reifað.

VoV fékk m.a. þau skilaboð frá Veiðifélagi Eyjafjarðarár þess efnis að svona veiðar væru ólöglegar. Stangaveiði á göngusilungi væru ólöglegar í sjó. Ein skilaboðin (ekki samt frá VE) voru meira að segja á þann veg að VoV væri að hvetja til lögbrota. Jæja.

Vel má það vera að lög segi að þetta sé bannað. Ekki ætlar VoV að véfengja það. Og áður en lengra er haldið skal það áréttað að VoV var alls ekki að hvetja til slíkra veiði. Það er bara hlægilegt að gefa slíkt til kynna. Ef fréttin er lesin þá má glöggt sjá að menn sem hafa áhuga á svona veiði eigi að ráðfæra sig við landeigendur, sem þá væntanlega segja þeim að það megi ekki gefa slík leyfi, nú eða veita slík leyfi vegna þess að þeim er slétt sama eða að þeir vita ekki betur en það megi. Og þá er um samviskumál viðkomandi að ræða, ekki ritstjórnarstefnu VoV.

Að þessum pælingum loknum þá verður að segja að þetta er mjög áhugaverð ábending frá þeim Eyfirðingum, sem við þökkum þeim hjartanlega fyrir. Og hvers vegna er þetta áhugaverð ábending? Jú. Það er vegna þess að all nokkur hópur veiðimanna stundar svona veiðar. Auk allra þeirra mörgu sem stunda strandveiðar, en oftar en ekki blandast sjóbleikja og sjóbirtingur í blandaðan afla þeirra. Svona veiðiskapur, bæði með strandveiðigræjum og nettari spinnerum, er stundaður út um allt. Þarf ekki að leita alla leið til Eyjafjarðar, við á VoV gerum út frá suðvesturhorninu og einn vinsælasti veiðistaðurinn á þessu sviði er Kollafjörðurinn. Og hvað með Hraunsfjörðinn, eitt vinsælasta „veiðivatn“  landsins, en þar eru menn að veiða sjóbleikju í söltum sjó. Nú eða veiðar á ósasvæði Héraðsvatna.

En allt um það, fréttin átti að vera jákvætt innlegg, að sjóbleikjan sem hefur verið á undanhaldi, hefur sýnt sig sterklega síðustu daga í sjónum og senn fer hún að ganga í árnar.