Miðfjarðará í Bakkafirði.
Efri Ármótahylur í Miðfjarðará í Bakkafirði. Mynd Haukur Geir Garðarsson.

Tungulækur er nú kominn í umboðssölu til Strengs sem er þekktastur fyrir eignarhald og veiðileyfasölu í Selá í Vopnafirði. Þetta stafar af því að Ingólfur Helgason, áður hjá IFF (Icelandic Fly Fishermen) er nú orðinn starfsmaður Strengs og Tungulækur eltir hann, sem og Sunnudalsá sem að IFF seldi í á nýliðnu sumri. Strengur er nú með fimm umtalsverð veiðisvæði á sinni könnu.

Tungulækur er ein albesta sjóbirtingsá landsins og þótt víðar væri leitað, en áin skipti umeignarhald á árinu og var IFF falið að selja veiðileyfin fyrir nýja eigendur. Vertíðin var góð eystra, enda uppsveifla í í sjóbirtingi. Það sem kannski vantar við Tungulæk er veiðihús, en undirbúningur að slíku er hafinn. Líklega verður húsið þó ekki klárt fyrir vorveiðina.

Sunnudalsá
Sunnudalsá er augljóslega stórglæsileg veiðiá. Myndin er fengin af vef IFF.

Í fyrsta skipti í einhver ár var Sunnudalsá í Vopnafirði seld sem sér eining og kom á daginn að hún stendur vel undir því. Þetta er gríðarlega falleg á (en köld) sem rennur í Hofsá. Áin gaf 118 laxa s.l. sumar og var stór hluti af þeim bata sem Hofsá var að skila, enda eru árnar jafnan taldar saman. Með Ingólfi fylgir Sunnudalsá.

„Þetta er breyting fyrir mig, ekki spurning, nú er Strengur með nokkur svæði og umsvifin hafa aukist. Tungulækur, Sunnudalsá sem er mjög vinsæl eftir síðasta sumar. Við má bæta Selá, Hofsá og Miðfjarðará í Bakkafirði, sem fer í almenna sölu fyrir 2019. Hún er reyndar rosalega vel seld, margir sem voru í henni með fyrri leigutökum og vilja halda áfram,“ sagði Ingólfur í samtali við VoV.