Kápa bókar Sigurðar.

Á dögunum kom út ein athyglisverðasta veiðibók síðari ára. Bókaútgáfan Drápa gaf þá út bókina Af Flugum Löxum og Mönnum eftir Sigurð Héðinn Héðinsson, sem margir þekkja betur undir nafninu Siggi Haugur.

Í bókinni segir Siggi veiðisögur, segir frá flugum, hvernig á að lesa vatn og einnig frá veiðimönnum eins og bókartitillinn ber með sér. Þetta gerir hann listilega vel og hnýtir skemmtilega saman. Siggi hefur ekki skrifað margt um daganna þannig að þetta er líklegast frumraunin í bókarsmíði.

Fyrir þá sem ekki vita þá er Haugsnafnið tengt hinni eitruðu laxaflugu Haugurinn sem Siggi fann uppá fyrir mörgum árum. Hann sagði svo frá á sínum tíma að nafnið stafaði af því að hann var í hnýtingarkompu sinni og hnýtti flugu eingöngu uppúr haug af hnýtingarefni sem lá eins og hráviði um borðið. Útkoman var þessi magnaða fluga. Síðan hefur hann hannað og hnýtt fjölda frábærra flugna og bryddað auk þess uppá nýjungar í fluguhnýtingum. Þá hefur hann starfað sem leiðsögumaður laxveiðimanna víða um land, mest við Vopnafjarðarárna síðustu árin. Hann er því hafsjór af fróðleik.