Eldvatn, Eldvatnsbotnar
Eldvatn í Meðallandi. Myndin er tekin í Eldbatnsbotnum. Mynd -gg.

Það horfir vel fyrir komandi sjóbirtingsvertíð, mikil veiði var í vor og í fyrra haust og vatnsbúskapur í Eldhraunsánum er mjög góður enn sem komið er. Jón Hrafn Karlsson, einnn leigutaka Eldvatns sagði sjóbirting vera farinn að sýna sig þar eystra.

„Já, hann er aðeins byrjaður að koma og ég mun gera tékk um helgina. Þá mun ég vita meira um stöðuna,“ sagði Jón Hrafn í samtali við VoV, en löngum hefur verið haldið fram að fyrstu birtingarnir komi um eða rétt fyrir miðjan júlí, gjarnan stórir fiskar. Slíku hefur Þórarinn Kristinsson við Tungulæk löngum haldið fram og Jón Hrafn tók í sama streng, „Það byrjar að færast líf í þetta snemma í júlí, en þá eru allir uppteknir af dýru laxveiðiánum. Þó eru nokkrir kúnnar hérna hjá mér sem að koma í júlí og lenda iðulega í fiski. Annars er ég ansi bjartsýnn á að Eldvatnið sprengi skalann í síðsumars- og haustveiðinni, því þriggja vikna vorveiði skilaði meiri afla heldur en kom allt metveiðiárið i fyrra,“ sagði Jón.

Um vatnsbúskapinn, sem oft hefur  verið áhyggjuefni,  sagði Jón Hrafn: „Vatnsbúskapurinn er fínn eins og er, enda hefur rignt vel hér um slóðir í sumar. Það er náttúran sem ræður þessu í sveitinni. Hörður í Efri Vík lokaði fyrir auka vatnsskammtinn 15.6 síðast liðinn þegar leyfið rann út, en það er miklu vestar, við Bresti, og var löngu áður en að rigningarnar sem hér voru fyrir tíu dögum lyftu Skaftá upp.“