Leirá.
Erfitt að ná þessu, en eftir að hafa rokið í Nobblerinn lagðist hann og hann er þarna skugginn hægra meginn á miðri mynd. Orð þrautreynds veiðimanns sem sá hann betur en við á þessum myndum. Ekki sjóbirtingur, ekki hoplax....

Það er stutt í laxveiðivertíðina og oft er miðað við gamla netaveiðitímann í Hvítá í Borgarfirði, 20.mai, skv því ætti lax að vera farinn að kíkja þangað….en í Leirá?! Jú svo virðist vera….

Laxá í Kjós, Kvíslafoss
Laxá í Kjós. Kvíslarfoss, þar sást lax líka í morgun…

Við heyrðum af því að Stefán Sigurðsson, leigutaki árinnar, hefði verið að athuga í morgun hvort að enn væri sjóbirtingur í ánni, en síðan sagði hann farir sínar ekki sléttar:  “Við vorum að leita af sjóbirtingi í Leirá og vorum komnir í veiðistað no 2 sem er ekki langt frá ósnum, ég er  viss um að þetta sé lax.  Hann kom einu sinni á eftir svörtum Nobbler en stressaðist síðan og lagðist. Þessi staður er ca 200 metrum frá ós, kannski laxinn snusi af ferskvatninu og skríði inn og jafnvel fari aftur út eins og sjóbirtingurinn, það er stórstreymt núna svo mér finnst það ekki ólíklegt, Leirá er nú ekki þekkt fyrir að hafa snemmgengin stofn. En það er gaman af þessu, menn búast ekki við að sjá fyrsta laxinn í Leirá, ef þetta væri hoplax værum við búnir að veiða hann, þeir eru þannig og þessi hagaði sér aldrei þannig, en enginn hoplax veiddist í vorveiðinni hjá okkur að mér vitandi,“ sagði Stefán í samtali við VoV.

Þess má einnig geta í þessu samhengi, að Bubbi Morthens sá lax sem hann taldi nýgenginn í Kvíslarfossi í Laxá í Kjós í morgun. Við vitum ekki nákvæmar útlistanir, heyrðum bara af þessu, en Bubbi hefur sitt heimili við Meðalfellsvatn og þegar vorar fer hann og kíkir í Kvíslafoss á hverjum morgni áður en hann heldur til vinnu. Samkvæmt upplýsingum sá hann lax í morgun sem hann taldi ekki hoplax, en enn er nóg af þeim í Laxá, og taldi að þetta væri viku sienna en í fyrra, sem gæti passað, vorið nú er erfiðara en í fyrra.

Þannig að haldið ykkur fast, laxinn er mættur. Og senn munu berast frekari fréttir af nýjum fiskum héðan og þaðan.