Hamrar, Brúará
Nútímalegri mynd frá Hömrum, tekin síðasta sumar.

Fish Partner hefur nú hafið sölu á svæði sem getur vart talist annað en „legendary“, Hamrasvæðið í Hvítá eystri, við ármót Hvítár og Brúarár. Vatnaskil eru að öllu jöfnu frábær veiðisvæði og örfáar sögur sem fara af þessu svæði eru magnaðar.

Víglundur Guðmundsson, Hamrar, Brúará
Hér er Laxa-Lundi með 37,5 og 30 punda drekana!

Hér er fréttatilkynning frá Fish Partner: „Fish Partner hefur hafið sölu á veiðileyfum á svæði Hamra í Hvítá í Árnessýslu. Þetta skemmtilega tveggja stanga veiðisvæði á sér langa sögu. Mikið magn af laxi, sjóbirtingi og bleikju gengur um svæðið. Allur lax á leið í Brúará, Stóru Laxá, Litlu Laxá, Tungufljót, Fossá og Dalsá fer um svæðið. Hamrar eru við ármót Brúarár og Hvítár. Laxinn á það til að hanga í skilum fersk- og jökulvatnsins langt fram á haust áður en hann gengur upp árnar til hrygningar. Því er spennandi að kasta á skilin. Þrír merktir veiðistaðir eru á svæðinu, Hamrar, Ullarklettur og Hængaklettur. Þeir eru allir stórir og miklir en fiskur getur legið á öllu svæðinu og því um að gera að veiða svæðið allt vel. Hamrar geta oft geymt stóra fiska.Veitt er á tvær stangir á svæðinu. Veitt er á tvær stangir á svæðinu og eru þær seldar saman. Seldir eru heilir dagar, frá morgni til kvölds. Veiðitími er að hámarki 12 klukkustundir á dag á tímabilinu frá kl. 7 til 22. Leyfilegt agn er fluga, maðkur og spúnn. Hver stöng má aðeins drepa tvo laxa á dag. Eftir það skal sleppa öllum laxi. Lítið veiðihús fylgir svæðinu, eitt svefnherbergi, stofa og eldhús.“

Hamrar, Brúará
Laxa-Lundi með svakalega dagsveiði af Hamrasvæðinu.

Eins og þeir geta um Fish Partner menn þá á þetta svæði sér langa sögu og má nefna að þar veiddi Víglundur Guðmundsson, kallaður Laxa-Lundi, 37,5 punda hæng sumarið 1952. Sama dag veiddi hann annan sem var um 30 pundin og þá helgi veiddi Laxa-Lundi við annan mann 30 laxa sem þó var ekki þeirra mesta veiði, því helgarveiðin gat farið í 50 laxa og þegar það gerðist var blessunarlega vörubíll með í för. Stóri laxinn er enn í hópi stærstu laxa sem veiðst hafa í íslenskum ám, hann var 122 cm og 66 cm í ummál. Svaðalegur fiskur eins og sjá má af myndinni.