Hólaá
Það eru augljóslega til mjög vænir fiskar í Hólaá. Þessi mynd er fengin frá IO veiðileyfum.

Veiði á staðbundnum silungi hefur farið misjafnlega vel af stað vítt og breytt um landið og spilar eflaust inní eðli hvers veiðistaðar, hitastig láðs og lagar og þess háttar. Af stöðum sem farið hafa sérlega vel af stað má nefna Hólaá í Biskupstungum.

Iceland Outfitters selja leyfin í Hólaá og eru með svæðin fyrir jörðum Laugardalshóla og Austureyjar 1. Þetta er nokkuð stæðileg á sem rennur úr Laugarvatni og sameinast svokölluðum Hagaós, sem er aðal frárennsli Apavatns og fellur til Brúarár. Svæði Laugardalshóla og Austurey 1 eru meðal efstu svæðin og þar hefur veiðin verið afburðagóð það sem af er.

Hólaá, urriði
Flottur Hólaárurriði.

Stefán Sigurðsson hjá IO sagði í samtali í gær að veiðin hefði komið skemmtilega á óvart þó að vitað hafi verið að um góða veiðislóð væri að ræða. “Það eru stöðugt að koma góðar fréttir af svæðinu og höfum heyrt af dagsveiði allt að 60 fiskum. Gæði fisksins kemur og á óvart, þetta er mest urriði eins og e rog stærðin er góð. Og vel vænir fiskar innan um. Þetta hefur verið talin mikil og góð bleikjuá en urriðinn hefur verið að sækja í sig veðrið og er aðalfiskurinn svona í byrjun vertíðar. Þegar hlýnar meira verða hins vegar umskipti og bleikjan verður þá aðalfiskurinn,” sagði Stefán.

Menn geta velt fyrir sé veiðisæld Hólaár á meðan önnur svæði fara seinna í gang. Það kann að stafa af því að áin kemur frá Laugarvatni og mikinn jarðhita er þar að finna. Má því leiða líkum að því að hitastigið sé hærra í Hólaá heldur en í margri annarri veiðistöðinni miðað við árstíma.