Vatnsdalsá, Pétur Pétursson
Veiðimaður þenur köstin við Vatnsdalsá í morgun. Mynd Pétur Pétursson

Svo virðist sem að það sé að rætast eitthvað úr nokkurri smálaxaþurrð í ám á norðanverðu landinu. Nefna má tölur úr Vatnsdalsá og Miðfjarðará síðasta sólarhringinn því til stuðnings. Það er að sigla í viku síðan að stórstreymi skilaði sterkum göngum á vestanverðu landinu, en það er alþekkt að göngur skili sér einhverjum dögum síðar nyrðra.

 

Pétur Pétursson leigutaki Vatnsdalsár sagði í samtali í morgun að morguninn hafi verið „geggjaður“, ellefu laxar hafi verið komnir á land klukkan rúmlega tíu. Smálax þar að ganga. Fram að því hafi smálax verið að reytast inn jafnt og þétt en ekki sem sterkar göngur. Nú væri mögulega breyting í vændum. Á sama tíma fréttist að gærdagurinn hafi gefið hart nær áttatíu laxa í Miðfjarðará, lang besti dagur sumarsins og mikið af því hafi verið nýgenginn smálax þó að stærri hafi einnig veiðst í bland. Án þess að við höfum tölur yfir það þá höfum við einnig heyrt af stækkandi smálaxagöngum í Laxá á Ásum.