Faxi, Tungufljót
Falleg mynd af Faxa. Myndin er fengin hjá Lax-á

Ein langvinnasta deila um veiðirétt hefur nú verið til lykta leidd með hæstaréttardómi, en veiðileyfasalinn Lax-á vann í síðasta mánuði mál gegn eigendum Bergsstaða við Tungufljót í uppsveitum Árnessýslu.

Faxi, Tungufljót
Breiðan neðan við fossinn Faxa er þekktasti veiðistaðurinn í Tungufljóti. Mynd fengin hjá Lax-á

Þetta kemur fram á heimasíðu Lax-ár skömmu fyrir jól, þar sem sjá má reifun á dómnum, en Lax-á gerði fyrst samning við Veiðifélag Tungufljóts 2003 og síðan aftur 2010 og stóð frá upphafi fyrir umtalsverðri fiskrækt í formi gönguseiðasleppinga. Eigendur Bergsstaða, sem eru neðarlega við ána, undu ekki þessum samningum og töldu sig óbundna af þeim. Og ekki nóg með það heldur gerðu eigendur Bergsstaða margt til að stugga við og leggja stein í götu veiðimanna á vegum Lax-á, fyrir utan að veiða sjálfir, og vinir þeirra, af öndverðum bakka við viðskiptavini Lax-ár og þá gjarnan með spún sem Lax-á leyfði ekki. Eru þær margar sögurnar þar sem skjólstæðingar Lax-ár stóðu undir skæðadrífu af stærstu fáanlegu Tóbí-spúnum sem smullu í ána nánast uppi í landsteinum.

Þetta mál hefur velskt öll þessi ár í dómskerfinu og á sínum tíma féll dómur Bergstöðum í hag um 2003 samninginn, en nú var málefni 2010 samningsins loksins komið inn í hæstarétt sem að úrskurðaði Lax-á í hag. Á heimsíðunni skrifa Lax-ár menn og konur m.a. „Í stuttu máli snerist málið um það að  landeigendur fyrir landi Bergstaða reyndu markvisst að hindra stangveiðmenn frá ánni auk þess sem þeir veiddu ána með spæni án leyfis frá Austurbakka. Í framhaldi af því var höfðað dómsmál sem nú hefur verið til lykta leitt í Hæstarætti með því að viðurkenndur var réttur leigutaka til skaðabóta.“

Sem fyrr segir þá er reifun á dómnum á heimasíðu Lax-ár, www.lax-a.is og er það áhugaverð lesning