Vesturhópsvatn – margslungið og skemmtilegt

Veiðihús SVFK og Vesturhópsvatnið í baksýn.

Þau eru mörg athyglisverð veiðivötnin á Íslandi. Eitt slíkt er Vesturhópsvatn á austanverðu Vatnsnesi, rétt vestan við víðfrægt veiðivatn, sjálft Hópið. VoV kom í tvígang við í Vesturhóp í liðinni viku, sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema hvað vatnið er um margt merkilegt að ekki sé minnst á veiðisældina.

Veiðitilfæringar báru ekki árangur að þessu sinni, en við höfum komið þarna áður og gert fína veiði. Mest höfum við verið í urriða af ágætri stærð af staðbundnum vatnafiski að vera. Við höfum notið gestrisni Stangaveiðifélags Keflvíkur sem eru með gamla parhúsið sitt staðsett þarna. Gott ef þetta er ekki sama húsið og þeir höfðu til fjölda ára í Heiðardal, við Heiðarvatn ofan Mýrdals. Þegar eigendaskipti urðu á jörðum í dalnum héldu Suðurnesjamenn ekki stöðu sinni og fóru þeir þá á stjá og fundu stað fyrir húsið sitt, nefnilega við Vesturhópsvatn. Þar stendur það í litlu sumarhúsahverfi þar sem hæfileg vegalengd á milli húsa tryggir að menn geta staðið sáttir við grillið eftir góðan dag án þess að verða fyrir truflun.

Sérlega þægilegt er fyrir börn að athafna sig við Vesturhópsvatn, þægileg malarströng og aðdýpi lítið.

Þarna er líka sérlega barnavænt og SVFK hafa ekki hvað síst reint að gera út á þau sjónarmið að fjölskyldur veiði saman. En stundum veiðist lítið og þá er að öðru að hyggja og í báðum veiðihúsum parhússins eru veiðibækur sem ná nokkur ár aftur í tímann og þar má kynnast nokkuð eðli þesssa vatns. Fyrir það fyrsta þá eru ekki seld veiðileyfi í mörg vötn hér á landi þar sem netaveiðileyfi fylgir. SVFK sér mönnum ekki fyrir netum, en leyfið er fyrir hendi, netin mega liggja yfir nóttina, og í veiðibókunum má sjá að ýmsir hafa fært sér það í nyt. Og veitt vel, bæði urriða og bleikju. Í Sumum færslum er talsvert af fiski 2-4 punda. Þá hafa menn einnig veitt samhliða á stöng og gert það gott. SVFK er með báta þarna í víkinni neðan við húsið og ljóst að fleiri sumarhúsaeigendur þarna eru með útgerð, en all nokkrir bátar eru þarna hlið við hlið á ströndinni.

Vesturhópsvatn er stórt og náttúrufegurð er þar mikil, svo og fuglalíf. Í Stangaveiðihandbókinni 3 bindi er greint frá vatninu og segir þar að í vatnið renni Reyðarlækur frá Miðfjarðarvatni í suðri og úr því Faxalækur austur yfir í Víðidalsá. Af þeim sökum hafi hér áður fyrr verið nokkuð um að lax og sjóbirtingar gengu í vatnið og færu jafnvel allar götur upp í Miðfjarðarvatn. Kannski er eitthvað um slíkt enn. VoV minnist fréttar fyrir öruggglega góðum þrjatíu árum síðan, að 24 punda sjóbirtingur veidddist á stöng í Vesturhópsvatni og þótti ekki tiltökumál fyrir utan jú hversu hrikalega stór hann var. Fiskur þessi var dreginn úr plastpoka í veiðibúðinni gömlu Veiðimanninum í Hafnarstræti og hringt yfir á Morgunblaðið sem var ekki seint á sér að senda ljósmyndara á hlaupum yfir í næstu götu en Moggi gamli var þá sem kunnugt er í Aðalstræti.

Í fyrrnefndri Stangaveiðihandbók er þess getið að bleikja sé aðalfiskurinn í vatninu sé bleikja, en í veiðibókunum má sjá að aflinn er vel blandaður, þ.e.a.s. bæði bleikja og urriði. VoV hefur oftast gengið best með urriðann, en stöku bleikja einnig lent í aflanum. Skemmtilegt vatn og margslungið Vesturhópsvatnið og aðstaðan upp á vel háa einkun.