Fjórir laxar komu úr Selá er hún var opnuð í morgun. Menn urðu varir við talsvert líf, en aðstæður í Vopnafirði eru nú krefjandi, mikil hlýindi samhliða miklum snjó í fjöllum. Sem sagt, mjög mikið vatn.
Að sögn Helgu Kristínar Tryggvadóttur hjá 6RP, sem nú sér um Selá, opnaði Selá í fallegu sumarveðri, hvasst en hlýtt og sólríkt. „Fyrsti laxinn kom fljótlega á land á Sundlaugarbreiðu. Þaðan lá leiðin upp í Fosshyl og þar veiddust tveir til viðbótar. Sá fjórði kom svo nokkru síðar í Efri sundlaugarhyl.
Allt voru þetta vel haldnir tveggja ára fiskar, nýgengnir og lúsugir, á bilinu 79-85cm. Vel gert miðað við aðstæður, en mjög mikið vatn er í ánni og snjóbráð.“
 
             
		









