Zelda
Góðgerða-Zeldan, mögulega sú veiðilegasta til þessa....

Á síðasta sumri kom fram „ný“ fluga Zelda, sem að sló í gegn. Hún varð almannaeign, en var í raun ekki ný, því höfundurinn Kjartan Antonsson, hafði haldið henni til hlés. En í fyrra kom hún fram og nú boðar Kjartan að ný Zelda komi fram á hverju ári og að ágóði af sölu hennar renni til góðgerða.

Í FB færslu segir Kjartan m.a.:  „Ég fékk þá hugmynd fyrir nokkru síðan að gera alltaf eina nýja Zeldu árlega. Fyrsta árið verður sú Zelda aðeins hnýtt í 100 eintökum og aðeins í stærð 14. Hún kemur til með að kosta kr.2.000 og fer allt andvirði hennar til góðs málefnis. Ef öll eintökin fara út þá gera það kr.200.000 sem við öll komum til með að gefa. Það verður semsagt alltaf ein góðgerðar Zelda hnýtt fyrir hvert ár. Mig langar að fá ykkur í lið með mér og biðja ykkur um að koma með uppástungur hvert það góða málefni verður sem við öll ætlum að styðja.

Ég sé fyrir mér að það verði málefni/einstaklingar/minnihlutahópur sem ekki ber oft mikið á í fréttum en það þarf samt ekkert endilega að vera. Ekki vera feiminn að koma með uppástungur, því fleiri uppástungur því betra. Ég mun svo setja uppástungurnar inn á facebook síðu Zeldunnar og við kjósum um hvaða málefni við viljum styrkja. Góðgerðar Zeldan 2018 hefur ekki enn fengið nafn og datt mér í hug að hún fái nafn sem skýrskotar í það málefni sem hún kemur til með að styrkja.

Hún hefur að sjálfsögðu aldrei verið reynd og ekki vitað hvort hún verði fengsæl en líkurnar eru samt góðar þar sem Zeldurnar í þeim útgáfum sem þegar eru til hafa slegið í gegn hjá öllum ferskvatnfiskum hér á landi sem og í öðrum löndum. Að sjálfsögðu mun ég svo setja inn staðfestingu á því að aurarnir sem safnast skili sér á þann stað sem við viljum. En þar sem Zelda 2018 verður aðeins hnýtt í 100 eintökum ætla ég að hafa hámark á því hvað hver og einn/ein veiðimaður/kona getur fengið margar en hámarkið er 3.stk. Það styttist í að ný heimasíða Zeldunnar fari í loftið og verða þá vinningshafar í myndasamkeppni Zeldunnar kynntir en mig langar að hafa það sem fyrsta póst á þeirri síðu.“