Byrjunin víðast brokkgeng en það gæti verið að rætast úr

Ársæll Þór Bjarnason með einn af örfáum Blöndungum það sem af er vertíð.

Það styttist í að fleiri laxveiðiár opni, en þær sem hafa þegar opnað hafa ekki beinlínis baðað sig í stórgöngum. Helst að Þjórsá með sinn Urriðafoss hafi staðið undir væntingum. En talsvert hefur þó sést af laxi í ám sem enn eru óopnaðar, t.d. Laxá í Kjós og Elliðaánum.

„Það var fullt af laxi á Breiðunni í morgun,“ skrifaði Ásgeir Heiðar í færslu á Facebook í dag og er það fyrsta almennilega lífsmarkið í ánni til þessa, en stórstreymt er á föstudaginn, 11.6. Laxinn í Elliðaánum er að stærstum hluta smálax, en gengi annarra áa þessa fyrstu daga gefa til kynna að stórlaxinn verði ekki liðmargur í ár og er það í samræmi við að lítið var víða af smálaxi í fyrra.

Norðurá byrjaði t.d. með aðeins 7 laxa og holl númer tvö þar var aðeins með fimm stykki. Og enn daufara var það í Þverá. Blanda var svo kannski lökust og for beinlínis illa af stað þó að menn yrðu laxa varir.

VoV ræddi í gær við Höskuld Birki Erlingsson sem fylgist jafnan grannt með Blöndu og ynti hann eftir því hvort eitthvað væri að rofa til. „Nei ég veit að það er mjög rolegt. Mér líst ekki vel á þetta en þó er þetta i stíl við skortinn á smálaxinn i fyrrasumar. það getur ræst úr ef að það koma sterkar smálaxagöngur.  Ég er frekar svartsýnn en nú verða að koma sterkar smálaxagöngur. Hann Þorsteinn Stefánsson sem er yfirleiðsögumaður í Norðurá er að veiða núna og hann sagði mér í dag (í gær sem sagt) að hann og félagar hans voru fisklausir eftir fyrstu tvær vaktirnar.“

Við nefndum áðan göngur í Laxá í Kjós og Elliðaárnar. Laxá opnar þann 15.6, eða á þriðjudaginn eftir helgina, Elliðaárnar ekki fyrr en 20.6. Í millitíðinni munu eflaust berast tíðindi ofan úr Kjarrá og víðar.