Vænn urriði og óvenju mikið af bleikju

Sigurjón Bjarni Bjarnason með 65 cm urriða úr Þuríðarlóa.

Nú er búið að vera opið í Mývó í tvo sólarhringa. Komið hefur fram að skilyrði eru engan vegin hagstæð, rok og litur á ánni. En hér er úttekt á opnuninni frá Bjarna Júlíussyni.

Feðgar með vænt kvikindi í háfnum.

„Opnunin er erfið, kalt, mikill vindur, fiskur ekki mikið að hreyfa sig. Eftir tvo daga eru líklega um 80-90 fiskar komnir á land. Flestir þeirra bara mjög vel haldnir. Talsvert af bleikju í aflanum, sér í lagi úr Brunnhellishrófi. Aldrei þessu vant þá eru það straumflugurnar sem eru að gefa mest, þó andstreymisveiði með púpu skili alltaf sínu!

Þetta með bleikjuna. Já það er hellingur af bleikju að veiðast á efsta svæðinu, Geldingaey, sér í lagi í Brunnhellishrófi. Sennilega hátt í 20 kvikindi.“