Sunnudalsá á betri stað en í fyrra

Þessi 61 cm hængur veiddist í Sunnudalsá í kvöld. Það er sleppiskylda í ánni en þessi lax tók fluguna af slíku offorsi að hún endaði í tálknunum og laxinum blæddi út áður en hægt var að bjarga honum. Mynd S R Guðmunds

Sunnudalsá flýgur oftast undir radarinn þegar fjallað er um laxveiðiár á norðausturhorninu. Hún er all vatnsmikil þverá Hofsár, en er frekar köld og því ekki magnveiðiá. Hún hefur þó átt það til að gefa á annað hundrað laxa í góðum sumrum. Í ár er hún strax orðin mun betri en í fyrra.

Sem fyrr segir er Sunnan ekki magnveiðiá, en hún á þó sinn aðdáenda hóp því vissulega er veiðivonin góð og svo er áin og umhverfi hennar með ólíkindum fagurt sjónarspil, allt frá gljúfrunum ofan til og niður í Hofsá, fjölbreytileikinn og ægifegurðin eru með ólíkindum. Hún opnar seint, ekki fyrr en upp úr miðjum júlí og núna eru komnir 45 laxar á land. Tölur Sunnu eru oftast hafðar með í tölum Hofsár. Í fyrra var afar döpur veiði í ánni, lítið af laxi og hitabylgja nánast allt sumarið og fram á haust. Áin varð lítil og glær og erfitt að eiga við þá fáu laxa sem í ána gengu.

En sem sagt, það kroppast upp úr henni. Það er ekki mikið af laxi í ánni en umtalsvert líflegra en í fyrra þegar aðeins um 20 laxar eða svo komu á land. Nú er allur september eftir og talan komin í 45. Þetta er fín framför og í samræmi við uppgang í Selá og Hofsá sem voru einnig fremur slakar í fyrra.

Það eru nokkrir 75 til 85 cm laxar í aflanum í sumar en annars er laxinn smár. Mest þó af eðlilegum smálaxi, en einnig slatti af míkrólöxum, 48 til 50 cm langir. Er það einnig í samræmi við systurárnar tvær sem áður voru nefndar