Fer rólega af stað í Minnivallalæk en stendur til bóta

Minnivallalækur, Arnarhólsflúð
Arnarhólsflúð í Minnivallalæk ljósaskiptunum. Mynd -gg.

Veiðin hefur farið rólega af stað í Minnivallalæk í Landssveit, enda er jafnan mun kaldara inni í landi heldur en nær sjávarsíðunni. Þó er þar fiskur undir og nokkrir vænir komið á land.

VoV dvaldi við lækinn (sem er frekar á en lækur) í lok vikunnar. Það var lítið að frétta utan að risi sleit tauminn og hirti fluguna, músabrúna straumflugu, fyrra kvöldið. Þetta var neðarlega á Húsabreiðu. Einnig eltu fiskar í Guðbrandshyl og Hólmakvíslum. En rétta flugan virtist ekki vera undir. Alls voru komnir sjö fiskar í bók, þar af tveir vel yfir 60 cm. Hinir allir vænir þótt þeir væru smærri. Hópur reyndar veiðimanna var væntanlegur til að veiða um helgina, eflaust fara að sjást drýgri tölur í þessum fræga urriðaveiðistað á næstunni.