SVFR, einn stærsti veiðileyfasali landsins hefur boðað strangari veiðireglur heldur en áður hafa  verið á ýmsum af svæðum sínum fyrir komandi sumar. Er þar helst að kvóti á drepnum löxum hefur verið minnkaður í nokkrum ám og að auki hefur maðkur verið bannaður í Soginu. Fleira mætti nefna.

Hér eftir verður tveggja laxa kvóti á vakt í Hítará, Soginu, Gljúfurá og Andakílsá. Þetta er nú samt ansi ríflegur kvóti því að ef menn eru í góðum málum geta þeir verið að slá af allt að átta laxa í tveggja daga veiði.

Þá er ein athyglisverð og umtalsverð breyting er snýr að urriðasvæðum í Laxá í Þingeyjarsýslu. Þar hefur tveggja stanga svæði kennt við Staðartorfu verið fellt inní veiðisvæði Laxárdals. Síðustu ár hefur að sögn mátt drepa urriða í Laxárdal þrátt fyrir að hann hafi þar verið í nokkurri lægð síðustu sumur. Aftur á móti hefur verið rífandi veiði og mikill fiskur meira og minna á öllum svæðum árinnar neðan við virkjun þrátt fyrir að þar hafi verið ríflegur kvóti. Núna fylgir Staðartorfa sem sagt „Dalnum“ en stöngum ekki fjölgað að sama skapi og þeir sem veiða „Dalinn“ fá nú tæifæri til að taka eitthvað með sér heim á grillið þrátt fyrir breytinguna, því tveggja fiska kvóti á vakt verður á Torfunni.

Þá eru það tíðindi að nú má ekki drepa eitt eða neitt í Eldvatnsbotnum og er þá áin öll orðin „hrein“ V&S, en öllum fiski hefur verið sleppt í Eldvatni neðan Botna um nokkurt árabil. Mikil uppsveifla hefur verið í sjóbirtingsgengd þar síðustu 2-3 árin og síðasta vertíð sú besta í áratugi.