Risadagur á morgun!

Elliðavatn að vori. Mynd Heimir Óskarsson.

Morgundagurinn er eiginlega risadagur á hverri stangaveiðivertíð, lengi vel var það 1.mai, síðan 1.apríl, en það þótti of snemmt fyrir þennan stað, þannig að sæst var á Sumardaginn fyrsta. Við erum að tala um Elliðavatnið, háskóla stangaveiðimannsins þegar kemur að veiði á staðbundnum silungi.

Þetta er ekki vorboði, heldur sumarboði, sérstaklega eftir að opnunardagurinn var settur til frambúðar á Sumardaginn fyrsta. Að þessu sinni eru sumar og vetur ekki að frjósa saman, það er milt í veðri og á morgun verður væta og hiti vel yfir núllinu.

VoV hefur heyrt í all nokkrum veiðimönnum sem ætla að gera sér dagamun við vatnið á morgun og sumir þeirra hafa verið að kíkja upp eftir síðustu daga. Menn hafa séð uppitökur. Það hefur hlýnað vel eftir Norðurpólshretið á dögunum og fréttir héðan og þaðan á sjóbirtingsslóðum, og frá Þingvallavatni, að veiði hafi glaðnað og margir veitt vel.

Hvað Elliðavatn og mörg fleiri vötn varðar, þá gera menn bestu kaupin í Veiðikortinu, aðgangur að Elliðavatni og tugum annarra frábærra veiðisvæða.