Arnar Óswkarsson með 86 cm hrygnu úr Geirlandsá í kvöld. Mynd Gunnar Óskarsson

Stjórn SVFK opnaði Geirlandsá að venju, í blíðskaparveðri, en það kom þeim félögum spánskt fyrir sjónir hversu lítið vatn var í ánni. Ármótin við Stjórn voru óþekkjanleg og ef farið var niður á „Garða“ þá voru bara grynniingar og drulla þar. En, eins og þeim félögum var von og vísa, þá fundu þeir fiskinn og veiddu bráðvel.

Arnar með annað tröll, 85 cm hrygnu.

„Við fórum út um hádegi, en það var rólegt, lítið vatn og við fundum ekki fiskinn. Lönduðum samt fjórum. Svo fórum við Arnar bróðir í gönguför niður með ánni, reyndum við mastrið og svo örkuðum við enn neðar. Þá fundum við blett þar sem fullt var af fiski, settum í marga á stuttum tíma og lönduðum átján. Margir stórir, dagstalan fór þá í 26 sem er bara ansi gott þó að oft hafi verið meira. Þetta fer alltaf eftir aðstæðum og svona voru þær núna“, sagði Gunnar Óskarssson formaður SVFK í samtali við VoV.

Gunnar sagði einmitt að þeir hefðu lent í því sama og veiðimen í Eldvatni, fiskur hafi sýnt sig víða en tekið illa. „Til dæmis í Kleifarnefi og Tóftarhyl, þá eltu fiskar ítrekað en tóku ekki.“ En það er augljóslega nóg af fiski og við bætum í þetta á morgun,“ sagði Gunnar. „Ég setti í einn sem stökk og var erfiður, vel yfir 90 cm og ég ætla að sjá til á morgun hvort að hann kemur aftur, ég veit hvar hann er,“ bætti Gunnar við.