María Anna Clausen, Ólafur Vigfússon, Veiðihornið
María Anna Clausen og Ólafur Vigfússon eigendur Veiðihornsins standa fyrir mikilli hátíð í versluninni um helgina.

Verulega sérstöku máli í veiðibúðarbransanum er nú lokið með úrskurði þar til bærra opinberra aðila, en málið snérist um að Vesturröst taldi sig eiga vörumerkið Veiðimaðurinn og setti lögmann sinn í að koma þeim boðum áleiðis til Veiðihornsins sem notað hefur merkið um árabil, að hætta notkun þess, ella yrði unnið að því að loka verslunum Veiðihornsins. Eins og nærri má geta sættu Veiðihornshjónin sig ekki við þetta og hafa þau nú undir höndum úrskurð sér í hag.

Fjallað var um málið í viðskiptablaði Moggans og einnig má lesa úrskurðinn á vefsíðu Neytendastofu…

Um þetta sagði Ólafur í samtali við VoV: „Það er loksins komin niðurstaða í þetta athygliverða mál. Ingólfur nokkur Kolbeinsson í Vesturröst reyndi að stela af okkur nafninu Veiðimaðurinn um mitt ár 2016.  Nafn og merki Veiðimannsins hefur verið í okkar eigu og notkun síðan 2006. Við höfðum ekki hugmynd um það fyrr en í janúar á þessu ári þegar við fengum bréf frá lögmanni Ingólfs sem krafðist þess að við létum strax af notkun nafnsins.  Ef ekki yrði málið sent til yfirvalda, versluninni okkar lokað og við krafin um skaðabætur sem við kynnum að hafa valdið honum með notkun á nafninu Veiðimaðurinn. Málið hefur verið í höndum lögfræðinga síðan þá og nú loksins hefur Neytendastofa birt ákvörðun sína má málinu og tekur af allan vafa. Það er ótrúlegt í mínum huga að menn birti með svo skýrum hætti hvernig þeir eru innrættir og höndli ekki eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti í samkeppninni.“

Þá ritaði Ólafur eftirfarandi á FB síðu sína:  „Stundum verður maður bara kjaftstopp. Það átti við í janúar síðastliðinn þegar mér barst bréf frá lögmanni eins keppinautar okkar, Ingólfs Kolbeinssonar í Vesturröst. Í bréfinu var þess krafist fyrir hönd Ingólfs að við létum þá þegar af allri notkun nafns og merkis veiðibúðar okkar á Krókhálsi 4, nafn og merki sem hafði verið í okkar eigu og í notkun í rúm 12 ár. Nafn Veiðimannsins. Í bréfinu kom einnig fram að létum við ekki þá þegar af notkun nafnsins yrði farið í aðgerðir til þess að láta loka versluninni og krafist skaðabóta fyrir það tjón sem við kynnum að hafa valdið Ingólfi Kolbeinssyni með notkun nafnsins Veiðimaðurinn.
Þegar við fórum að skoða málið kom í ljós að Ingólfur Kolbeinsson hafði stofnað einkahlutafélagið Veiðimaðurinn ehf. með aðsetur að Laugavegi 178, 25. maí 2016 eða 25 dögum eftir að við nefndum veiðibúð okkar á Krókhálsi 4 Veiðimanninn. Enn skal það tekið fram að nafn og lén Veiðimannsins hafði verið í okkar eigu og í notkun árum saman. Ennfremur hefur myndmerkið Veiðimaðurinn verið skráð í okkar eigu hjá Einkaleyfastofu síðan 2010.
Það er með hreinum ólíkindum að þurfa að verja tíma sínum, fé og fyrirhöfn í stríð sem þetta við mann úti í bæ sem hafði þau áform að sölsa undir sig nafn vel þekktrar verslunar okkar.Orðsporið fylgir Ingólfi Kolbeinssyni og Vesturröst.Neytendastofa birti ákvörðun sína 17. þessa mánaðar. Þar er Ingólfi Kolbeinssyni alfarið bönnuð öll notkun á auðkenninu Veiðimaðurinn og tekinn af allur vafi að Veiðimaðurinn er í eigu fyrirtækis okkar hjóna, Bráð ehf.“