Ingólfur Ásgeirsson, Skiptafljót
Sá stærsti til þessa, 90 cm hængur úr Skiptafljóti á "skáskorinn" Skugga sem er ein af flugum Haugs.
Sigurlaug Sverrisdóttir, Þverá, Kirkjustrengur
Sigurlaug Sverrisdóttir með glæsilega hrygnu úr Kirkjustreng.

Opnunin í Þverá/Kjarrá hefur ekkert verið annað en frábær, í kvöld þegar við heyrðum í Ingólfi Ásgeissyni og Arndísi konu hans voru komnir hátt í fimmtú laxar á land og heill morgun eftir. Allt stórlax, upp í 90 cm bolta. Lax víða og jafnvel á stöðum sem skila sér ekki fyrr en um hásumar.

 „Það er alltaf seint og erfitt að fá tölur úr Kjarrá, en miðað við það sem við höfum þegar heyrt þá þori ég að segja að við erum núna með nærri eða um 50 laxa, um 30 úr Þverá og 20 úr Kjarrá. En þetta verður skjalfest og öruggt seinna í kvöld,“ sagði Ingólfur Ásgeirsson einn leigutaka Þverár/kjarrár í samtali við VoV nú í kvöld.

 Þetta er nánast allt stórlax, upp í 90 cm, en einn var á gráu svæði, 70 cm sem gæti bæði verið lítill stórlax eða stór smálax. Fregnir hafa borist af smálöxum í vor, t.d. úr Norðurá og Urriðafossi, þannig að ómögulegt er að segja.

Andrés Eyjólfsson, Þverá
Andrés Eyjólfsson frá Síðumúla með fyrsta lax sumarsins úr Þverá, 82 cm úr Guðnabakkastreng. Mynd Ingólfur Ásgeirsson.

 „Fyrsti dagurinn gaf 28 laxa og skilyrðin voru frábær. Það er mikið vatn í ánni, en í dag datt í stífa og kalda vestanátt. Það hefur áhrif. Samt er þetta líflegt og skemmtilegt og við erum að frétta af löxum hér og þar, staðir sem detta oftast ekki inn fyrr en um hásumar hafa gefið laxa, t.d. Norðtungueyrar. Laxinn er að ganga snemma og það er hluti af skýringunni. Þetta lofar allt saman verulega góðu, en við sjáum hvað setur,“ bætti Ingólfur við.

Leigutakar Þverár/Kjarrár eru einnig með Brennutanga þar sem Þverá mætir Hvítá og Straumana þar sem Norðurá mætir Hvítá. Það er vika síðan að farið var að reyna við Brennu og hafa veiðst 1-3 laxar þar á dag og mikið sést af stökkvandi laxi. Í Straumunum var opnað 5.júní og kom strax lax á fyrsta degi og verið líf síðan.