Haffjarðará
Veiði fór frábærlega af stað í Haffjarðará.

Þegar við hleruðum Einar Sigfússon í kvöld hafði Haffjarðará verið opin í Þrjár vaktir og það var sama sagan þar og annars staðar. Frábær byrjun. Eldri veiðimenn með stutta viðveru, en samt voru komnir 50 laxar á land eftir þrjár vaktir.

„Maður getur bara spekúlerað hvað kæmi á land ef að það væru ungir duglegir veiðimenn á svæðinu, en það skiptir í sjálfu sér engu máli. Aðal málið er að það er ótrúlega líflegt miðað við hversu stutt er liðið á sumar. Þeir sem hér eru stunda þetta temmilega og það voru komnir 50 laxar á land eftir þrjár vaktir. Þetta er blanda af stórlaxi og smálaxi. Mest þó af stórum, sá stærsti 94 cm,“ sagði Einar.

Við þetta má bæta að Laxá í leirársveit opnaði á þjóðhátíðardaginn og tveir voru dregnir á land á opnunarvaktinni. Laxinn tók grannt, var víða, en margir sluppu. Í fyrramálið er það Laxá í Kjós.