Þingvallavatn, Villingavatnsós
Það er einhvern svona sem menn geta átt í vændum á urriðaslóðum í Þingvallavatni. Mynd, Fishpartner.com

Fish Partner hefur náð samningum við bændur á Villingavatni um sölu veiðileyfa í Þingvallavatni fyrir landi Villingavatns ásamt því að selja veiðileyfi í sjálft Villingavatn. Þetta er spennandi svæði fyrir stórurriða auk þess sem mikið veiðist þar einnig af bleikju.

„Þetta er mjög spennandi verkefni enda um að ræða eitt magnaðasta urriðasvæði landsins“ sagði Kristján Páll Rafnsson, framkvæmdastjóri Fish Partner í skeyti til VoV. Kristján útskýrði fyrir okkur svæðið sem um ræðir: „Svæðið sem um ræðir í Þingvallavatni nær frá og með Villingavatnsárós í vestri og austur að Steingrímsstöð. Svæðinu verður skipt í þrjú minni svæði.

A svæði er sjálfur Villingavatnsárós, en hann er án efa eitt allra besta urriðaveiðisvæði í Þingvallavatni. Þar eru bolta urriðar allt árið um kring. Svæðið verður veitt með tveimur stöngum og verður aðeins heimilt að veiða á flugu. Sleppiskylda er á öllum urriða.  Svæði B nær frá merkingu í fjörunni austan við ósinn og inn í Hellisvík. Góð urriðaveiði hefur verið á þessu svæði undanfarin ár, einkum út af tveimur töngum á svæðinu.

Þingvallavatn, Villigavatnsós
Glæsilegur urriði. Mynd fishpartner.com

Þar verður einnig veitt á tvær stangir, aðeins á flugu og öllum urriða sleppt. Svæði C nær frá merkingu í Hellisvík og til Steingrímsstöðvar. Þetta er mjög fjölbreytt og skemmtilegt svæði, klettar og stórgrýti í bland við víkur og fjöru. Á svæðinu verða leyfðar sex stangir og verður heimilt að veiða á spún og maðk frá 1. júní, en fyrir það aðeins á flugu.

Þá verða seldar fjórar stangir í sjálft Villingavatnið. Villingavatnið lætur ekki mikið yfir sér en geymir þó gríðarlega stóra urriða. Vatnið hefur lítið verið veitt undanfarin ár og til að hlífa stofninum verður öllum fiski sleppt,“ sagði Kristján.

Áður hafði félagið tryggt sér leigu fyrir landi Kárastaða í Þingvallavatni, en landamerkin þar liggja upp að þjóðgarðinum og komast því næst allra svæða að vera nálægt ósi Öxarár, end lenda menn oft í ævintýrum í Kárastaðalandi, ekki síst við svokallaða Svörtukletta. Kristján Páll bætti við þetta að innan skamms yrði opnuð ný vefsíða félagsins og þar yrði vefsala á öllum svæðum þeim sem félagið hefur yfir að ráða og er það fjölbreyttur pakki eins og sjá má á núverandi síðu þess, fishpartner.com