Eldvatn
Einn flottur úr Eldvatni í vikunni, 67 cm eða meira....myndina tók Jón Hrafn.

Jón Hrafn Karlsson, einn leigutaka Eldvatns sagði í samtali við VoV að við uppgjör vertíðarinnar í ánni mætti sjá að meira hafi verið af stórum fiski í ár, en minna af geldfiski. Veiði lauk á sunnudaginn, 20.október.

Jón Hrafn sagði: „Nú þegar veiði er lokið þetta árið þá er ljóst að á land komu 484 fiskar. 463 sjóbirtingar , 17 laxar og 4 bleikjur. Það einkenndi árið 2019 að fiskurinn var ansi vænn.

Við höfum tekið saman fjölda fiska er veiddust yfir 70cm og reyndust það vera 101 fiskur á bilinu 70-79cm , 39 fiskar á bilinu 80-89cm og 3 fiskar rufu 90cm múrinn en þeir voru 90 , 93 og 95cm langir.

Sjóbirtingur er ansi þéttvaxinn og sem dæmi má nefna 85cm hrygnu sem veiddist að hausti og viktaði heil 18 pund í háfnum. Því er nokkuð ljóst að nokkrir sjóbirtingar hafa rofið 20 punda múrinn þetta árið.“

Aðspurður nánar um geldfiskinn og hvort að ástæða væri til að hafa áhyggjur af því að einhver niðursveifla væri yfirvofandi sagði Jón Hrafn ekki svo vera. „Hann er óútreiknanlegur og var að koma nokkuð allra síðustu daganna. Ef aðstæður í sjónum og ósnum eru góðar þá er hann líklega bara þar að éta. Við vonum allavega það besta,“ bætti Jón Hrafn við