Ásgarður, Bíldsfell, Sogið
Á lokadegi voru veiðimenn Bíldsfells búnir að vaða yfir að bakka Ásgarðs og dúndruðu spúnum þar fram og til baka...og mokveiddu að sögn leigutaka Ásgarðs, Árna Baldurssonar.

Eftir nánast hrollvekjandi sumar í Soginu í fyrra, þá verður ekki annað sagt en að góður bati hafi verið í sumar. Það liggur fyrir þó að við höfum ekki allar tölur á takteinum. Við byggjum að mestu á tölum frá Lax-á….

Lax-á er með Ásgarð og þar voru góð skot af og til í sumar og síðan frábær endasprettur í haust. Gefum Árna Baldurssyni leigutaka og eiganda orðið: „Nú er lokið veiðum í Ásgarði, 24.9 var lokadagur. Alls veiddust á þrjár stangir 264 laxar og 47 bleikjur sem flestar voru rígvænar. Ég er ánægður með þessa niðurstöðu og sannfærður um að áin á eftir að eflast ár frá ári héðan af, ekki síst fyrir tilstillli þess að á okkar svæði er aðeins veitt á flugu og öllum laxi sleppt. Þá skiljum við eftir nóg af laxi til að hrygna og byggja stofninn aftur upp. Nú í haust var lax á lofti um alla á og mjög mikið af því var rígvænn tveggja ára lax.“

Þetta er mun meira en veiddist í allri ánni í fyrra, þegar hún rétt losaði 100 stykki. Eftir sem áður er Alviðra slök, en Bíldsfell var að gefa góð skot og Syðri Brú líka, þannig að batinn í sumar frá því í fyrra er umtalsverður.

Árni var þó ekki svona kátur yfir síðustu daga vertíðarinnar, veiðimenn frá Bíldsfelli, sem er í leigu SVFR, gengu freklega fram og óðu nærri yfir að Ásgarðslandi og köstu spúnum upp í landsetina. Og mokuðu upp laxi. Þarna voru m.a. á ferðinni árnefnd SVFR eftir því sem fram hefur komið, en einnig aðrir. Spúnn er afar stórtækt agn þegar skilyrði eru góð á hausti og þessi uppákoma kemur nokkuð á óvart eftir þau orð og fréttir sem féllu í fyrra er Sogið rétt mjakaði sér, handónýtt og dautt yfir hundrað laxana og allir sem hagsmuna hafa að gæta sögðu einróma að áin yrði tekin í gjörgæslu og allt gert til að koma þessari fornfrægu laxveiðiá á réttan kjöl á ný. Eitthvað var SVFR seint til að bregðast við.

Jón Þór Ólason formaður SVFR lét hafa eftir sér á FB, þar sem greint var frá spúnakörlunum, að málefni Sogsins væri til skoðunar hjá félaginu og að rætt yrði bæði við árnefndina og aðra sem voru í Bíldsfelli á undan um þetta mál. Félagið liti þetta alvarlegum augum.

Inn í þetta fléttast síðan að fyrr á árinu var greint frá því að hópur landeigenda á vatnasvæði Hvítár og Ölfusár hefði gert innrás á aðalfund félagsins með meirihluta um að leggja af netaveiðar. Þrátt fyrir samþykkt þar að lútandi þá sagði Árni Baldursson í samtali við VoV á sínum tíma að þetta væri ekki gleðisigur og það myndi eflaust þurfa að setjast yfir málin til að sátt fengist í héraðinu. En í umræðunni núna sagði Árni: „Ég er nokkuð viss um að netin fari ekki niður næsta vor , nú er það Fiskistofu að staðfesta netaupptökuna , ég geri fastlega ráð fyrir því að Fiskistofa staðfesti það.“