Þorrflugur
Nokkrar vel valdar þurrflugur í laxinn, grænn og brúnn Bomber, tvær litlar Blue Bottle og svo er þarna lítill marabou Muddler sem hefur feikna flotmátt og getur verið eitraður. Mynd Heimir Óskarsson.

Fyrir nokkrum dögum kom fram í veiðifrétt Sporðakasta frá Miðfjarðará að þó nokkuð hefði veiðst á Bomber þurrflugur. Þurrfluguveiðar hafa ekki mikið verið stundaðar í íslenskum laxveiðiám. Nokkrir sérfræðingar hafa þó gripið til þeirra og sett í laxa. Hins vegar liggur ekki fyrir hvort að þurrflugur séu jafn gjöfular í laxveiði og í Kanada og laxveiðiríkjum Norður Ameríku.

Grænn Bomber
Grænn Bomber.

Bomber flugurnar eru til í mörgum útgáfum sem títt er um ýmsar gjöfular laxaflugur og eftir smávegis gúgglerí var helst að sjá að guðsmaður að nafni Elmer Smith hafi fyrstur manna hannað Bombera á sjöunda áratugnum til notkunar við Miramichiána og að Bomberar séu að öllum líkindum mest notuðu þurrflugurnar í laxveiði. Og mikið notaðar einnig á stálhausaám á vesturströnd Bandaríkjanna. Þetta eru gjöfular flugur og hönnun þeirra gefur þeim mikinn flotmátt. Hermt er að séra Smith hafi fyrst fengið hugdettuna um Bomberflugur þegar hann sá ungling landa sjóbirtingum í York River í Main, með músaeftirlíkingu sem hnýtt var úr dádýrshárum.

Brúnn Bomber
Brúnn Bomber.

Það væri sniðugt að prófa þetta, sérstaklega ef að hefðbundnar aðferðir eru ekki að gagnast. Nú hafa t.d. staðið staðviðri um nokkurt skeið og þá gæti dugað á laxinn að prófa eitthvað öðru vísi. T.d. þurrflugu. Eins og Bomber. Aðal aðferðin er að kasta nokkuð upp fyrir sig og láta dauðareka. Þverköst og jafnvel köst á þrengri horn niður fyrir veiðimanninn geta einnig gefið tökur. Enn fremur láta menn þurrflugurnar oft skauta og gera rák líkt og hitsaðar flugur gera. Hvaða aðferð sem reynd er, þá er eitt á tæru, tökurnar eru hrikalegar. Hausinn kemur uppúr, ginið gapandi og svo lokast það og það stríkkar á línunni.

Nú er sagt frá notkun á Bomberum í Miðfjarðará. Við höfum einnig heyrt um notkun þeirra í Laxá í Leirársveit og Laxá í Kjós og í þeim báðum er sjóbirtingur ekki síður líklegur til að vaða í flugurnar. Önnur tegund sem að nefnd hefur verið er Blue Bottle, eða Fiskiflugan, sem sjá má einnig á efstu myndinni. Hún hefur gefið reglulega vel við ákveðin skilyrði í Kjósinni, en er ekki oft reynd.