
Niðurstöður eru komnar úr erfðarannsókn á bleikju sem veiddist í net. í Litlasjó í fyrrahaust. Um var að ræða 56 cm og 2420 gr hrygnu og ekki hefur orðið fyrr vart við bleikju í Litlasjó sem er hreint urriðavatn. Mikil bleikja er þó víða í Veiðivötnum.
Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar hafa rannsakað fiskinn. Bleikjan var hrognafull og hefði líklega hrygnt um haustið ef hún hefði lifað. Líklega hefur hún hrygnt einu sinni áður og þá haustið 2018. Bleikjan reyndist 8-10 ára, líklegasti aldur er 9 ár. Hreistur og kvarnir báru þess merki að hún gæti verið af náttúrulegum uppruna eða úr eldi sem smátt seiði. Þetta byggir á því að hún var smá eftir eins árs vöxt , 8 cm samkvæmt bakreikningi á hreistri.
Niðurstaðan útilokar að um eldisfisk sé að ræða. Erfðaefnið er aftur á móti mjög líkt því sem finnst í bleikjum í Snjóölduvatni og Skálavatni. Líkur eru því á að fiskurinn sé kominn úr villtum bleikjustofni á svæðinu. Hvernig fiskurinn var tilkominn í Litlasjó var ekki hægt að skera úr um og möguleikarnir taldir geta verið nokkrir.
Sú var tíðin að Veiðivötn voru hreinar urriðakistur, en við það að bleikja komst í nokkur vötn sem náðu samgangi við Tungná fór allt að breytast. Nú eru all nokkur vatna í klasanum mikil bleikjuvötn og urriða hefur hrakað í þeim vötnum. Bleikjan hefur síðan þá tilhneigingu til að offjölga sér og smækka og er það til staðar víða í Veiðivötnum. Því er það svo að menn óska þess að um einstakt atvik sé að ræða, ein bleikja geti ekki sett allt á hliðina, en ef að bleikja nær með einhverjum hætti betri aðgangi að Litlasjó og fleiri urriðavötnum á svæðinu, þá geti það spillt veiði til lengri tíma litið.