Tungulækur, sjóbirtingur, Ingólfur Helgason
Einn vænn gefur ljósmyndara við Tungulæk illt auga! Mynd er frá Ingólfi Helgasyni og tekin í fyrra.
Eldvatn, Einar Oddgeirsson
Einar Oddgeirsson með rígvænan birting úr Eldvatni í gær. Myndina tók Erlingur Hannesson.

Eftir óhemju gjöfulan opnunardag sjóbirtingsvertíðarinnar s.l. sunnudag, héldu menn áfram að setja í fiska, en það hægði verulega á, enda fór allt á kaf i sjókomu og svo kólnaði til muna. Hér er smá eftirfrétt…

Okkur vantaði Húseyjarkvísl í síðustu frétt, en Valgarður Ragnarsson leigutaki árinnar, sem var meðal þeirra sem opnuðu ána, sagði okkur að milli 30 og 40 fiskar hefðu veiðst þar af tíu frá 60 cm og ofar. Það þýðir 20-30 smærri fiskar sem veit á góða stöðu geldfisks í ánni. Að sterkir árgangar eru á leiðinni.

 

Geirlandsá, sem var með metopnun á sunnudag, eitthvað um 80 fiska, var lítið veidd í gær, tveir opnunarmenn fóru þó örstutt út að morgninum og lönduðu samt 14 fiskum og sáu mikið.

Húseyjarkvísl, Valgarður Ragnarsson
Sjóbirtingi landað upp á skafl við Húseyjarkvísl. Myndin er af FB síðu Valgarðs Ragnarssonar.
Valgarður Ragnarsson, Húseyjarkvísl
Valgarður Ragnarsson með einn spikfeitann úr Húseyjarkvísl.

Hollið sem tók við seinni partinn í gær lenti í erfiðum skilyrðum og höfum við ekki fregnir af gangi mála þar enn, en leyfi veður ættu menn að geta skemmt sér vel.

 

Tveir veiðimenn „hörkuðu af sér mestu snjókomu vetrarins í Meðallandi,“ eins og Jón Hrafn Karlsson, einnn leigutaka Eldvatns, orðaði það og lönduðu fimm fínum fiskum, allt að tæpum 80 cm á svæðinu fra Hundavaði og niður í svokallaða Gullkistu.

 

Þá má nefna Varmá sem SVFR er með á sínum snærum. Þar veiddust 45 fiskar á sunnudaginn samkvæmt færsta Stjána Ben á heimasíðu félagsins. Í gær hafi veiðst minna, ekki síst sökum kulda, en þá hafi eigi að síður veiðst tveir stærstu fiskarnir til þessa, annar um 80 cm og hinn ríflega 70 cm.