Sjóbirtingur, Leirvogsá
Vígalegur sjóbirtingur úr Leirvogsá. Myndin er fengin af vefsíðu Lax-ár

Vorveiðikostum stangaveiðimanna á Íslandi fjölgar stöðugt og eitt það nýjasta er hin rótgróna laxveiðiá Leirvogsá, eða einn af bæjarlækjunum á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þetta er eflaust vel til fundið því löngum hefur verið góður stofn af birtingi í ánni. Þá gengu tilraunaveiðar í fyrra vonum framar.

Það er Lax-á sem hefur haft Leirvogsá á leigu allra síðustu sumrin og á heimasíðu þeirra stendur m.a.: „Við höfum nú sett í sölu afar spennandi kost í vorveiðinni en um er að ræða sjóbirtingsveiðar í Leirvogsá. Lengi hefur verið vitað að Leirvogsá geymir góðan stofn af sjóbirting og hafa menn í gegn um árin fengið fanta flotta birtinga allt upp í 15 pund. Vorið 2018 var farið af stað með tilraunaveiðar á sjóbirting í ánni og var veiðin framar öllum vonum. Á neðri hluta árinnar reyndist töluvert magn af birtingi sem var ginnkeyptur fyrir flugunni. Það þarf vart að taka fram að aðeins skal veitt á flugu og öllum birtingi sleppt ogekki þarf heldur að taka fram að eigi skal hirða hoplax heldur.

Til þessa hefur vorveiði á birtingi ekki verið mikið stunduð á Suðvestanverðu landinu, einungis þekkjum við til slíkra veiða í Laxá í Kjós, Grímsá og Leirá, en kannski er þetta forsmekkurinn af því sem koma skal, því ár á borð við Þverá, Laxár í Leirársveit, Korpu og Elliðaánar geyma allar stofna sjóbirtings. Að ógleymdum vatnamóta á borð við Brennu og Straum í Hvítá.