Elliðavatn að vori. Mynd Heimir Óskarsson. Örlítið lengra til hægri er Þingnestanginn

Vatnaveiðin hefur verið á góðri uppleið að undanförnu og senn fer í hönd besti tíminn þó að víða veiðist vel allt til sumarloka og fram á haust. Nöfn mætti nefna sem hafa verið gjöful að undanförnu, Elliðavatn, Vífilstaðavatn, Hólaá, Apavatn, Laugarvatn og Úlfljótsvatn.

Það sem einkennir víða veiðiskapinn er að bleikja gefur sig æ meir á móti urriðanum, það er að segja þar sem hún er einnig til staðar. Þingvallavatnið er meira að segja farið að gefa bleikju, en þar segja reynsluboltar að það gerist þegar birkið á svæðinu tekur við sér. Urriðaveiði í vatninu hefur hins vegar afburðagóð.

Þó að heitustu dagar til þess hafi verið einn og einn um tíu stigin þá hefur líf kviknað í vötnum og veiðimenn upplifa flugnaklak. Þá byrja uppitökur af krafti og þá færa sig margir yfir í þurrflugu.

Ásgeir Ólafsson er með slyngari vatnaveiðikörlum Suðvesturhornsins og þessir fiskar hans úr Elliðavatni í gær sýna að það er von á fleiru en tittum á þeim slóðum. Og stærri fiskur slapp að auki.

Það getur verið gæfulegt að reyna eitt og annað þegar hið hefðbundna virðist ekki ætla að virka. Einn sem við þekkjum til leitaði t.d. ráða hjá Ríkarði Hjálmarssyni vatnaveiðiprófessors er viðkomandi ætlaði að reyna í fyrsta skipti fyrir sér í Úlfljótsvatni. Dagskipun Ríkarðs var að nota mjög langan taum og hreyfa fluguna afar hægt. Það reyndist sér best að það eru góð ráð því að Ríkarður er afburða veiðinn.

Kunningi okkar ók norður fyrir kirkjuna og fyrsta víkin var laus, afar fallegur veiðistaður og okkar maður fór út á klapparnefið. Þar er mjög djúpt. Hann fór eftir leiðbeiningum, leyfði flugunni að sökkva drjúglengi og dró svo lúshægt.  Á innan við tíu mínútum lágu þrjár á bakkanum. En þá gerðist það að það tók fyrir alla töku. Reyndi okkar maður sömu taktík drjúga stund. En þá var að reyna eitthvað annað. Nú var reynt að draga fluguna bara alls ekkert, rétt að taka inn lausa línu eftir rek. Á þessu dauðareki komu fjórar í viðbót á hálftíma. En þá tók fyrir allt saman á ný.

Kvöldstund við Elliðavatn.

Það hafði verið dálítil gola sem yrjaði vatnið, en nú datt allt í dúnalogn. Það hlýnað og upp spratt rykmýsklak. Bleikjan fór að éta í yfirborðinu af áfergju. Þá dugði ekkert og þegar okkar maður var búinn að skipta yfir í þurrflugu var aftur komin gola og ekkert að gerast. Fór hann þá aftur í dauðarek og lúshægan drátt til skiptis. En fleiri urðu bleikjurnar ekki það kvöldið.

Þetta rifjaði upp aðra sögu frá Elliðavatni fyrir nokkrum árum. Veiðimaður hafði vaðið út á Engjarnar og var mest að nota ýmist þyngdar eða óþyngdar púpur. Ekkert gekk lengi vel, en þá lygndi skyndilega og það byrjuðu uppitökur um allt og hann sá bleikjur sveima mjög nærri og skjóta upp trýnunum. Á þessum árum var meira af bleikju en urriða. Nú var fálmað eftir þurrfluguboxi, sem hafði auðvitað gleymst og kom nú bylgja örvæntingar yfir veiðimanninn. Allt sem hann átti í boxunum sökk, mishratt að vísu, en sökk. Í einhverju æði tók hann til við að strippa mjög hratt, rétt eins og gefur oft svo vel í laxveiði. Og þá gerðist það, hver neglingin af annarri og var þó ekkert lát á uppitökum. Þarna komu negllingar með boðaföllum. Sumum var landað, aðrar sluppu, en áður en yfir lauk voru sjö vænar bleikjur í háfnum og annar eins fjöldi hafði sloppið. Og þá eru ótalin óteljandi skiptin sem fiskur elti með boða án þess að taka. Þetta voru algerlega sturlaðar 30-40 mínútur, en svo var slökkt á öllu eins og með ljósrofa.

Þannig að það má grípa til margs ef hið hefðbunda og viðurkennda er ekki alveg að gera sig.