Margrét Haraldsdóttir, Vatnsdalsá
Margrét Haraldsdóttir með stærsta lax dagsins úr Vatnsdalsá, 100 cm hæng á Collie Dog Túpu....Myndina tók væntanlega bóndi hennar Ágúst Sigurðsson.

„Þetta gekk vonum framar hjá okkur í dag,“ sagði Ágúst Sigurðsson leiðsögumaður við Vatnsdalsá í samtali við VoV í kvöld, en áin opnaði eftir hádegið í dag. Meðal sex laxa sem landað var, voru 97 og 100 cm drjólar. Ekki amalegt það.

Ágúst sagði okkur að alls hefði sex löxum verið landað á vaktinni og allir hefðu þeir verið vænir, 79 til 100 cm, nánar tiltekið 100, 97, 94, 85, 80, 80 og 79 cm. Einn veiddist ofan Flóðs, á Hrauninu og var það 97 cm laxinn. Annar misstist við Efri Ármót, þannig að lax hefur gengið í einhverju magni upp fyrir Flóð. „Það var talsvert af laxi á svæðinu neðan við Flóð, í Hólakvörn og Hnausastreng og þar var mest að gera. Sá stóri, 100 cm, veiddist í Hnausastreng, það var Margrét Haraldsdóttir sem veiddi laxinn á Collie Dog, tommulanga plasttúpu. Það er þriðji tuttugu pundarinn sem við höfum frétt af á þessu sumri.