Stuð á Kárastöðum í fyrrakvöld, á fjórða tug rígvænna urriða voru dregnir á þurrt og sleppt aftur. Myndin er frá Fish Partner.

Urriðaveiði í Þingvallavatni er á miklu skriði þessa daganna og það eru ekki bara ION svæðin sem eru að gefa. Önnur svæði í vatninu eru einnig með afbrigðum lífleg, Kárastaðir, Svörtuklettar, Þjóðgarðurinn. Og að vanda er þorri landaðra fiska rígvænir.

Kristján Páll Rafnsson hjá Fish Partner lýsti þriðjudagskvöldinu á Kárastöðum með þessum orðum: „Þvílíkt yndislegt kvöld!. Komum um kl. 6 að Þingvallavatni og í fyrsta kasti var fiskur á! Við enduðum á því að landa 34 fallegum urriðum, öllum stórum! Sumir þeirra voru  jafnvel allt að því tröll. Það var mikið hlegið og brosað og fagnað eftir hvern fisk. Aðstæður voru fullkomnar og fiskurinn var út um allt. Við eigum vonandi marga svona daga í vændum í sumar og ég get ekki beðið eftir að taka þátt í því“.