Elliðavatn að vori. Mynd Heimir Óskarsson.

Fjölmargir veiðimenn hafa nýtt sér Veiðikortið að undanförnu, sérstaklega eftir að veðurfar fór loksins að batna um það bil viku af apríl. Og vötnin eru að taka við sér, svo mikið er víst.

Appelsínugulur Nobbler, Nobbler, silungsveiði, silungaflugur
Appelsínugulur Nobbler er sterkur í urriðann í Elliðavatni. Dreginn með stuttum rykkjum. Mynd Heimir Óskarsson.

Eitt þessara vatna er Vífilstaðavatn sem að opnaði 1.apríl. Fyrst um sinn var veiðin kropp, en hefur glæðst að undanförnu. Hafa menn bæði verið að landa urriðum og bleikjum. Fiskur er bæði smár og vænni. Einn af fastagestum vatnsins á vorin er Ásgeir Ólafsson og sagði hann vatnið hafa verið líflegt síðustu daga og besti tíminn væri skammt undan. Mælti hann með löngum grönnum taumum og nefndi svarta og brúna vinil rib sem heitar flugur. Mikið er af fiski í Vífilstaðavatni og hægt að hitta á fisk nánast hvar sem er, en þeir sem leið eiga þarna hjá taka eftir því að suðurbakkinn er sérstaklega vinsæll. Menn ættu þó að ganga um gætilega því þetta er friðland með viðkvæmu fuglalífi, m.a. eru flórgoðar í tilhugalífi og hreiðursmíði við vatnið.

Þá er Elliðavatn eitt þessara vatna Veiðikortsins sem að trekkir að veiðimenn. Það var opnað á sumardaginn fyrsta, þ.e.a.s. síðast liðinn fimmtudag. Var mönnum kalt í morgunsárið og margir mættir, veiði fremur róleg. En veiðin hefur tekið við sér síðustu daga og VoV frétti af góðum skotum um helgina, í góða veðrinu. Helst að menn væru að setja í fiska að morgni og svo aftur að kveldi. Fyrst og fremst urriðar og stöku fiskar ágætlega vænir.

Þá er búið að opna Þjóðgarðssvæðið, sem er einnig á hendi Veiðikortsins. Þar hefur einkum frést til þessa af vænum ísaldarurriðum. Sérfræðingar segja að bleikjan fari fyrst að taka við sér þegar birkið tekur við sér. Það gæti farið að eiga sér stað hvað og hverju eftir góða veðrið að undanförnu.