Stóra Laxá, Árni Baldursson
Fyrsti laxinn úr Stóru Laxá var engin smásmíði, en svæði 1 og 2 opnuðu í dag. Myndin er fengin frá Árna Baldurssyni.

Síðbúnustu árnar eru að opna nú um mánaðamótin, Stóra Laxá, Jökla og Breiðdalsá eru þeirra nafntogaðastar og þær fóru allar vel af stað samkvæmt fréttum frá umsjónarmönnum/leigutökum þeirra. Skoðum það aðeins…

Árni Baldursson greindi frá því að svæði 1-2 í Stóru Laxá hefðu verið opnuð og að þar hefði verið líflegt. Settu veiðimenn í sjö laxa og lönduðu þar af fjórum. Allt var þetta fallegur tveggja ára lax. Svæðin ofar í ánni opna svo koll af kolli.

Þröstur Elliðason, Jökla
Þröstur Elliðason með einn af fyrstu löxunum úr Jöklu í morgun, 83 cm hrygnu! Myndin er frá Strengjum.

Svæðin hans Þrastar Elliðasonar á Austurlandi eru síðsumarssvæði og opnuðu í dag. Í Jöklu var líflegt, fimm var landað fyrir hádegi og allt boltafiskur. Einn kom að auki í gær lengst uppi á Jökuldal, silungsveiðimaður nældi í hann og því greinilegt að lax er farinn að renna langt inn á öræfi. Breiðdalsá var að sama skapi í lagi, fjórum landað þar skv upplýsingum frá Strengjum, leigutaka árinnar. Þrír veiddust á þeim frábæra stað Skammadalsbreiðu, einn í Gunnlaugshlaupum. Allt að 90 cm boltar.

Fögruhlíðarós
Sjóbleikjan er að ganga í Fögruhlíðarósinn, þessi er hátt í 60 sentimetrana…myndin er frá Strengjum.

Við þetta má bæta, að sjóbleikjuveiði hefur verið afar góð í Fögruhlíðarósi að undanförnu og bleikjan væn. Greinilegt að hún er að ganga þangað inn fyrr en oft áður líkt og sést hefur víðar á norðanverðu landinu.