Norðurá
Mikið um að vera, aðstoðarmannateymi Þórunnar hafa í nógu að snúast og laxinn er kominn í háfinn! Mynd Heimir Óskarsson.

Veiði fór ágætlega af stað í Norðurá í morgun, talsvert var af laxi og þegar veiðimenn höfðu kastað flugum í um klukkutíma var búið að setja í tvo, Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður félags eldri borgara landaði fyrsta laxinum að þessu sinni.

„Þetta var geðveikt stuð fyrir gamla konu. Við getum þetta öll, sama hver aldurinn er,“ sagði hún glaðbeitt eftir að laxinn hennar var kominn í háfinn. Þetta var ekki lítið sjónarspil, því Þórun lenti nýverið í bílslysi og gengur við staf sem stendur og ekki auðvelt að vera úthlutað Konungsstreng í mjög miklu vatni, en áin var 43 rúmmetrar að þessu sinni, til samanburðar var hún 26-27 rúmmetrar í fyrra þegar opnað var.

Norðurá
Hér sleppir Þórunn laxinum.
Rauð Frances, hexagon
Þetta er flugan sem gaf þann fyrsta, lítil rauð Frances með hexagon tungsten haus.

Þórunn veiddi á árum áður og hefur víða komið, en hún sagði fimmtíu ár vera síðan að hún veiddi síðast í Norðurá.

Einar Sigfússon sölustjóri Norðurár sagði brosandi að nú yrði laxinn tekinn á flotlínur og smáar léttar flugur, „við viljum fá yfirborðstökur,“ sagði hann. Hann sagði jafn framt að við athugun í gærkvöldi hefði mátt sjá töluvert magn af laxi ofan af klettinum fyrir ofan Brotið, „við vorum örugg með 14 laxa, en þeir gátu verið fleiri, svo er alltaf Eyrin og Konungsstrengur,“ bætti Einar við.

Gestir Norðurár voru að þessu sinni Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands og Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Félags eldri borgara, eins og fram hefur komið. Einar Sigfússon sagðist hafa valið þau þar sem þau væru í fararbroddi tveggja hópa sem spjót hafa staðið að, en bæði staðið sig með sérlegri prýði í þeirri baráttu.

Sindri Sigurgeirsson, Norðurá
Sindri Sigurgeirsson kominn ansi nálægt því að koma laxinum í háfinn. Hann hefði orðið sá fyrsti úr Norðurá í sumar, en á endametranum losnaði flugan úr laxinum.

Veiðin hófst laust uppúr klukkan átta í morgun og ríflega hálftíma seinna var hinn gestur dagsins, Sindri Sigurgeirsson. Hann var ásamt Einari að veiða á Brotinu þar sem laxatorfan hafði sést í gærkvöldi. Eftir nokkurt reiptog, losnaði flugan úr laxinum.

Stuttu áður en skyldi á milli Sindra og laxins setti Þórunn í lax í Konungsstreng. Hún var ekki í fljótandi fæðinu fyrir laxinn heldur beitti smárri rauðri Frances með hexagon haus.  Það dugði og hrygnu var landað, 79 cm og slétt 5 kíló vegin í háfnum. Að þessu afstöðnu héldu VoV menn til byggða, en við fylgjumst að sjálfsögðu með framvindu mála í Norðurá til kvölds.

Nú er veislan sem sagt byrjuð, Urriðafoss á dögunum, Norðurá í dag, Blanda og Straumarnir á morgun og síðan Brennan, Þverá og Kjarrá öll svæðin á fimmtudaginn. Síðan koma hinar allar hver af annarri. Laxinn hefur sést mjög víða í ýmsum þekktum ám og virðist sú sveifla að laxinn sé farinn að ganga fyrr enn vera við lýði.