Kápa vorblaðs Sportveiðiblaðsins 2020

Vorblað Sportveiðiblaðsins kom út fyrir skemmstu og að venju kennir þar ýmissa grasa. Lítið ber á skotveiðinni að þessu sinni, enda rennur nú í hlað stangaveiðivertíðin 2020. Fjöldi fróðlegra greina og viðtala er í blaðinu.

Stóra viðtalið að þessu sinni er við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, en hann hefur verið ástríðuveiðimaður frá blautu barnsbeini. Hann hefur víða veitt og marga fjöruna sopið á bökkum vatnanna. Fer hann um víða völlu í viðtalinu. Þá er einkar fróðlegt viðtal við Ingólf Ásgeirsson hjá Störum, en félagið steig það djarfa spor að taka á leigu Blöndu og Svartá, eftir að Lax-á sagði sig frá samningum þar, og hafa breytt óhemjulega veiðireglum og þankaganginum á þeim slóðum. Rekur Ingólfur það allt saman í viðtallinu. Margt annað skemmtilegt mætti tína til, eins og t.d. uppgjör Suðurnesjamannsins Ásgeirs Ólafssonar á veiðisumrinu 2019. Þá eru fróðlegar greinar um veiðar á fjarlægum slóðum, t.d. skrifa Harpa og Stefán hjá IO um veiðar í Suðurhöfum og Jóhann Davíð hjá Lax-á skrifar um Grænland, þó að það teljist reyndar tæplega til  „fjarlægra slóða“. Látum þetta duga, blaðið er fínasta upphitun fyrir komandi vertíð.