Það er fallegt og veiðilegt við Fossála. Mynd Ásgeir Ólafsson.

SVFK hefur látið vita af því að í fyrsta skipti verður boðið upp á vorveiði á sjóbirtingi í Fossálum, sem eru eitt af flaggskipum félagsins, skammt austan við Kirkjubæjarklaustur. Þetta er nýjung og það eru strangar reglur í gildi, aðeins fluga og öllu sleppt.

Í fréttatilkynningu frá SVFK segir m.a.: „Þetta er gert í fullu samráði við veiðiréttareigendur en vorveiði hefur ekki verið stunduð í Fossálunum þann tíma sem SVFK hefur haft ána á leigu. Eingöngu verður leyfð veiði á flugu og skal öllum fiski sleppt. Þar sem um nýjung er að ræða á þessu veiðisvæði er verði leyfa stillt í hóf. Verða seldir tveir dagar saman með skiptingu á miðjum degi þ.e. hálfur, heill, hálfur og allar stangir saman.
Verður gaman að sjá hvernig þetta kemur út, þar sem ekki er vitað nákvæmlega hvaða veiðistaðir eru bestir að vori til í álunum.“

Í minningunni var áður stundum vorveiði í Fossálum, mögulega var Lax-á þá með svæðið. Það var hægt að hitta á flotta veiði, en á þeim árum datt engum í hug að sleppa birtingi. Það fór illa með ána og var hætt. En þar sem hugmyndafræði nútímans er önnur þá ætti ekki að vera hætta á ferðum.