Einn sá stærsti úr Geirlandsá 2019, 95 cm. Gunnar Óskarssson, landaði honum 1.apríl í fyrra.

Sjóbirtingsveiði hefur verið í umtalsverðri uppsveiflu síðustu vertíðir og fiskur farið stækkandi, enda færist í vöxt að birtingi sé sleppt og eðli málsins samkvæmt ná þá fleiri háum aldri og mikilli stærð. Við höfðum heyrt að ástandið hafi verið sérlega flott í Geirlandsá, en tölurnar sem við fengum frá SVFK komu okkur samt á óvart!

Gunnar Óskarsson formaður SVFK reyndist vera nýbúinn að taka saman skýrslu úr veiðibókum Geirlandsár þegar við spurðum hann útí málið. Hann sagði: „Það komu 828 fiskar á land í Geirlandinu í fyrra. Af því voru 35 laxar og 11 bleikjur. Haltu þér nú…það var 121 birtingur yfir 80 cm og þar af 15 yfir 90 cm! Þeir stærstu voru 98 cm. Það er gaman að bera þessar tölur við aðrar ár á svæðinu.

Fiskurinn var mjög stór og vel haldinn í fyrra, en þetta er ekki metveiði í fjölda þarna. Við höfum farið alveg við 1000 fiskana. Já en í öldungum er þetta metveiði. Það er greinilegt að við höfum verið að gera rétta hluti þarna þó svo að alltaf séu einhverjir sem allt þykjast vita að gagnrýna okkar aðferðir.

Það var ekki mikið af geldfiski á ferðinni á veiðitíma en það segir oft ekki alla söguna, hann getur verið niður í Vatnamótum og jafnvel neðar, en gæti jafnvel kíkt upp í Geirland eftir veiðitíma. Þetta var víst yfir línuna þannig þarna fyrir austan, við fáum ekkert alltaf geldfiskinn upp í Geirland s haustin, það er bara misjafnt.“

Svo mörg voru orð formannsins og greinilegt að sterkir árgangar eldri fiska eru í ánni og höfum heyrt af því sama í öðrum ám á svæðinu þó að þessi tölfræði slái líklega öllu við. Nú eru aðeins rétt rúmir tveir mánuðir í næstu vertíð, en all nokkrar af sjóbirtingsánum opna 1.apríl sem kunnugt er. Menn mega því eiga von á góð með þessa öldunga meira og minna svamlandi um enn, þar sem þeir var vel flestum sleppt aftur.