Veitt á efsta svæði Eystri Rangár, fossinn í baksýn.

Fram hefur komið að allt er að breytast við Eystri Rangá, Einar Lúðvíksson sem þar hefur verið með utanumhald til fjölda ára, hverfur á braut, allavega sem veiðileyfasali og veiðileyfarisinn Roxtons tekur við. Roxtons er einn stærsti söluaðili veiðileyfa sem fyrirfinnst og hefur verið með marga hópa í Eystri síðustu árin í gegnum Lax-á.

Þar sem þetta er ekki ný frétt fyrir lesendur, sem lesa Sporðaköst líka, viljum við benda á að það eru fleiri tíðindi. Fyrir utan fækkun stunda á hverjum seldum stangardegi og fleira, þá spurðu margir sig, hvað með vorveiðina sem Guðmundur Atli Ásgeirsson hefur séð um síðustu árin, júníveiðin, en Eystri er með sterkan stórlaxastofn sem oftar en ekki veiðist vel í júní og er settur í kistur til að viðhalda stórlaxagenum þess lax sem í ána gengur. Síðan var Lax-á með besta tímann og svo Einar Lúðvíksson að selja haustið, september og október. Og einhver svör? Þau gaf Guðmundur Atli á FB í dag og gerði gott betur. Þetta sagði hann á færsu á FB:

„Hef tekið að mér sjá um bókanir veiðileyfa fyrir veiðifélag Eystri Rangár. Þeir sem áttu veiðileyfi í Affallinu í sumar eru í forgangi fyrir sumarið 2020, sama verð á næsta ári 20.000-70.000 stöngin á dag. Er líka með sölu veiðleyfa Þverá í Fljótshlíð, EystriRangá í september og október.“

Í annarri færslu kemur fram að hann er enn að selja í júní og eigi lítið eftir. En sem sagt, Affall og Þverá hafa líka verið á forræði Einars Lúðvíkssonar. En nú boðar Guðmundur að hann muni selja í þær.