Fimm laxveiðiár sem eru opnar lengur en gengur og gerist eru allar lokaðar núna síðan á sunnudag, 20.október. Mikill samdráttur er milli ára og munar miklu í þeim flestum.
Flestum en ekki öllum, Vatnsá var slök miðað við síðustu sumur, en þó munaði ekki ýkja miklu nú og í fyrra, 120 laxar á móti 144 í fyrra. Veiði þar lauk 10.október og hófst ekki fyrr en uppúr miðjum júlí. „Þetta var ekki árið, en horfur eru betri fyrir næsta sumar. Þetta er eitt af lakari veiðisumrum síðustu ára, en það sem bjargaði var að það var talsvert af sjóbirtingi og margir vænir. Þeir voru bæði að veiðast í ánni og vatninu,“ sagði Ásgeir Arnar Ásmundsson umsjónarmaður árinnar í samtali við VoV í dag.
Hinar fjórar hröpuðu harkalegar. Það eru Eystri og Ytri Rangá ásamt vesturbakka Hólsár, Þverá og Affall. Allar byggja þær á gönguseiðasleppingum og voru heimtur þetta sumarið sjáanlega afar slakar. Eystri Rangá var þrátt fyrir allt með hæstu heildartölu sumarsins, 3048 laxa sem er samt 912 löxum minna en í fyrra. Enn verra var það í Ytri Rangá, sem þó skipaði sér í annað sætið á heildarveiðilistanum með 1675 laxa. Það er 2357 löxum minna en í fyrra. Affall var með 323 laxa, sem er 549 löxum minna en í fyrra og Þverá var með 143 laxa, sem er 356 löxum minna en í fyrra. Við þetta má bæta að veitt er lengur í þessum ám heldur en sjálfbæru ánum þar sem vel heppnuð hrygning er ekki talin eiga sér stað vegna aðstæðna.