Miðfjarðará í Bakkafirði.
Efri Ármótahylur í Miðfjarðará í Bakkafirði. Mynd Haukur Geir Garðarsson.

Ekki lesa of mikið í fyrirsögnina, við erum að tala um Miðfjarðará í Bakkafirði í Bakkaflóa, norður af Vopnafirði. Hún er reyndar glettilega góð laxveiðiá og ein af þeim jafn betri á norðausturhorninu.

Ólafur Johnson með vænan lax úr veiðistaðnum Skrúð í Miðfjarðará. Mynd Haukur Geir Garðarsson.

Það er Strengur, leigutaki Selár, Hofsár og Vesturdalsár, sem er að taka við ánni úr höndum fyrri leigutaka sem að hafa haft hana á sínum snærum síðasta áratuginn eða svo. Strengur tekur hana næstu tíu árin. Þetta staðfestu við VoV, bæði Gísli Ásgeirsson framkvæmdstjóri Strengs og Haukur Geir Garðarsson einn fyrri leigutaka. Þeir segja báðir að skiptin hafi verið í góðu samkomulagi. Augljóslega hefur þessi breyting átt sé nokkurn aðdraganda, því að Strengur hefur byggt þrjá laxastiga í ánni síðustu tvö árin í samstarfi við fyrri leigutaka og landeigendur við ána. VoV verður á næstu dögum með viðtal með nánari upplýsingum um það stóra verkefni sem þarna er í gangi.