Tröllið úr Flögubakka í gær, tekinn á gulan Zonker.

Við gerðum stóra sjóbirtinga að umræðuefni í nýlegri frétt, einn sem getur tekið undir það er Kristján Páll Rafnsson, annar eigenda Fish Partner á Íslandi, sem er leigutaki Tungufljóts. Kristján hefur skotist tvisvar á lausa daga í Fljótið nú í haust og afraksturinn, meðal annarra fiska 88 og 93 cm risabirtingar.

Kristján með 93 cm hænginn á dögunum.

„Sá fyrri kom á Black Ghost í Syðri Hólma, fullkomið eintak af sjóbirtingi. 93 cm hængur, ótrúlegur fiskur,“ sagði Kristján Páll í samtali við VoV. Þann seinni veiddi hann í gær. „Sá var tekinn við ofanverðan Flögubakka á gulan Zonker. Hann var 88 cm og veginn 7,6 kg. Annars hefur Fljótið verið líflegt, en samt upp og ofan eftir skilyrðum. Það er mikið af 75 til 85 cm fiski á ferðinni og eru alls komnir í bók 320 urriðar, 73 bleikjur og 66 laxar. Þar er vorveiðin talin með,“ sagði Kristján.

Það verður að segjast að laxveiðin er með mesta móti í Fljótinu. Það veiðist alltaf slangur, en sjaldan svo margir.  Þá hefur bleikjuveiðin oft dottið niður í lítið, en skiptir nú máli í stóra samhenginu. Og margt af henni er vænn fiskur.