Hvaða stefnu tók samtal leigutaka og veiðiréttareigenda?

Langadalsá
Fallegur lax úr Langadalsá. Árið er 2018. Mynd David Thormar.

C-19 heimsfaraldurinn setti heldur betur strik í reikninginn hjá veiðileyfasölum. Margir af erlendum viðskiptavinum annað hvort koma ekki, eða treysta sér ekki til að koma og nýta daga sína. Þetta eru erfiðir tímar fyrir bæði leigutaka og landeigendur. Mikið var talað um það í vor að heljarinnar samtal yrði að eiga sér stað milli umræddra aðila, því það væri engum greiði gerður að leigutakar færu á hausinn. En hvaða stefnu hefur þetta tekð?

VoV hefur rætt við þá nokkra og menn hafa verið fúsir að ræða málin, en ekki tekið eins vel í að láta hafa eftir sér. Mikið hefur verið rætt um að leigutakar hafi í mörgum tilvikum óskað eftir afslætti af leiguverði. Í flestum tilvikum hefur verið tekið vel í það og einn sem við ræddum við sagði að fyrir utan 1-2 atvik þá væru farsælar lausnir í farvatninu. Leigutakar væru að óska eftir 50-60 prósent afslætti, sem myndi kalla á það sem nefnt hefur verið „opið bókhald“, sem þýðir að endurskoðendur eða lögmenn veiðifélaga mega fara í bókhald leigutaka við vertíðarlok til að athuga hvort að meira kom í pyngjuna en menn væntu. Þá njóti landeigendur góðs af því.

Þetta hér að ofan, hefur smollið saman við fregnir af því að leigutakar hafi samið um afslætti, en verið að gera að fullu upp við aðra leigusala. Um þetta sagði einn viðmælenda okkar: „Þetta fer eftir því hvað menn geta talið sig selt í viðkomandi ár. Þetta er eðlilegt. Menn eru kannski með samninga við þrjú veiðifélög og það gengur vel að selja í tvö en síður í það þriðja. Velgengni þessara tveggja geta ekki proppað upp það þriðja sem gengur verr. Ef að væntingar þar eru minni, þá leita menn eftir afslætti eða samningum,“ sagði viðmælandi okkar.

Annar sagði að í sumum tilvika yrði staðan skoðuð í haust og þá gert út um hvort að afslættir væru nauðsynlegir og þá hve miklir.

Allt snérist þetta um að menn tækju skellinn saman. Landeigendur hefðu engan hag af því að leigutakar færu á hausinn.

Í einni af aðal ánum þá hafa menn „fryst“ það sem viðskiptavinir hafa þegar greitt, en koma ekki. Menn taka skellinn og næsta ár borga þeir 30 prósent af kostnaði og koma og veiða. Viðskiptavinir í þeirri á hafa meira og minna tekið því fagnandi. „Þeir skilja vandann og yfirleitt skilja landeigendur það líka. Það er samt einn og einn sem sér ekki þetta með söluvæntingarnar og sjá ofsjónum yfir því að sumum veiðifélögum sé greitt til fulls á meðan þeirra félag þarf að samþykkja mikinn afslátt

Svo eru félög eins og Strengur, sem hefur gert upp að fullu í öllum sínum ám, en þeirra helstu svæði eru Selá og Hofsá, en einnig Sunnudalsá, Vesturdalsá og Miðfjarðará við Bakkaflóa, auk þess sem félagið hefur umboðssölu fyrir eigendur Tungulækjar. Einhverjar munu eflaust hugsa eða segja, Ratcliffe seilist bara í djúpa vasa sína. Og það er nokkuð til úi því, hann ákvað að þetta myndi ekki lenda á landeigendum og hafði aðkomu.