Berufjarðarvatn er nýtt vatn hjá Veiðikortinu.

veidikortid-2017

Ingimundur á Veiðikortinu hefur gert heyrinkunnugt að Veiðikortið 2017 sé nú komið á sölustaði. Nefndi hann fyrstu vikuna í desember og þar með sé gripurinn klár í jólapakkann. Lítill jólapakki það, en innihaldið samt svo ótrúlega stórt.

Yfirleitt eru litlar breytingar á kortinu frá ári til árs, en oftast dettur eitthvað út á sama tíma og eitthvað nýtt dettur inn. Að þessu sinni dettur Meðalfallsvatn í Kjós út og þykir mörgum það eflaust miður, en á móti kemur skemmtilegt lítið vatn vestur í Reykhólasveit. Berufjarðarvatn heitir það og er ágætur fiskur í því. Vatnasvæðin sem í boði eru, eru því eftir sem áður 35 talsins og verðið óbreytt, eða 6900 krónur sem er ótrúlega lítið fyrir mikið. Þetta er af því tagi, að því meira sem veiðimenn nýta kortið sitt, því ódýrari verður hver veiðiferð.

Mörg stéttar- og starfsmannafélög niðurgreiða Veiðikortið og er sjálfsagt að kynna sér það, annars má finna kortið á sölustöðum N1, Olís, Íslandspósti og veiðibúðum um land allt. Nánari upplýsingar má finna á vef Veiðkortsins, www.veidikortid.is