Á neðra svæðinu, áin í bugðum við bílastæðið. Mynd -gg.

Það er nú bara mjög stutt síðan að síðasta laxveiðiáin opnaði, Vatnsá litla í Heiðardal. Það þýðir ekkert að opna hana á sama tíma og aðrar ár, hún er langt inni í landi og er með síðgenginn stofn. En skv umsjónaraðila árinnar þá er þetta önnur eða þriðja besta opnun árinnar. Fiskur um allt, og göngur í gangi.

„Ég get þetta sjálf…“ og augljóslega stóðst það!

Fyrsti hópurinn fékk 6 laxa, en missti eina tíu eða fleiri. Þar voru á ferð vanir menn sem voru samt að láta börn veiða. Komu m.a. tveir Maríulaxar. Myndin af þeirri litlu endurspeglar skemmtilega veiðisögu. Afi barnsins er vanur veiðimaður sem komst þó ekki með í túrinn. Hann kenndi samt barninu að kasta flugu úti í garði og þegar komið var að Frúarhyl, ætlaði pabbi að kasta fyrir barnið, sem sagði, nei, ég kann þetta sjálf…..tók svo stöngina og kastaði. Og setti í laxinn í fyrsta kasti!

Skv Ásgeir Ásmundssyni eru komnir 17 laxar á land úr ánni og þeir hópar sem verið hafa, hafa séð laxa í allt að tíu hyljum, víðs vegar um ána. Þetta er mögnuð byrjun í jafn ákveðinni síðsumarsá. Ásgeir sagði auk þess í samtali við VoV að hann hlakkaði til að sjá hvernig sjóbirtingurinn kæmi út í sumar, hann hefur farið stækkandi ár frá ári, líkt og í ám austar, þá stækkar birtingurinn. Hann er langlífur og þegar menn eru hættir að drepa hann í stórum stíl, þá koma þessir risafiskar í vaxandi mæli við sögu.

Þess má geta svona í lokin á þessari yndislegu frétt, að umsjónaraðilar Vatnsár ætla að setja upp teljara í ánni á næsta ári. Teljarinn verður staðsettur neðan við seiðatjörnina sem er rétt ofan veiðikofans. Ofan við Frúarhyl, þannig að hann mun ekki telja þá fiska sem þar dvelja, en smt kannski það sem skiptir mestu máli, hvað gengur af fiski upp fyrir seiðatjörnina og niður aftur. Þá ætla eigendurnir að skipta um botn ofan við Frúarhyl, þar er mikill sandur. Honum verður skipt út fyrir möl.