Ein af myndunum sem Svíinn Christoffer Hurtta sendi umsjónarmönnum stangaveiða á Grímstunguheiði.

Silungsveiði inni á hálendisheiðum er vaxandi að vinsældum, bæði sunnan- og norðan heiða. Sem dæmi sunnan heiða má nefna efstu hlutar Köldukvíslar, en fyrir norðan eru vötn, ár og lækir á Auðkúlu- og Grímstunguheiðum. Þaðan berast af og til skemmtilegar fréttir af krefjandi veiðislóðum þar sem menn aka eftir torfærum jeppaslóðum, ganga mikið og setja í rígvænar bleikjur.

Við rákumst á nýlega lýsingu ofan af Grímstunguheiði, en félagsskapur sem hefur með það svæði að gera heldur úti FB síðu undir nafni heiðarinnar. Þar innfrá eru mikið af lækjum, ám og vötnum og eru bestu veiðisvæðin í Vatnsdalsárdrögum og Ströngukvísl. Þó má finna fisk nánast alls staðar og eflaust eru á þessum slóðum ósnortnir staðir.

En að veiðinni. Mest ber á mjög vænni bleikju á þessum slóðum og eru eintök sjaldan undir 40 cm og oftast milli 50 og 60 cm. Ekki er endilega sjaldgæft að bleikjur upp í allt að 70 cm sjáist. En FB síða Grímstunguheiðar sagði frá sænskum hópi sem var á svæðinu fyrir fáum dögum og „veitt vel,“ stærsta bleikjan var 3,1 kg, eða ríflega 6 pund og þá erum við komin í 60 sentimetrana. Fylgdi sögunni að vel hefði veiðst í allt sumar og sama má reyndar segja um önnur sambærileg svæði sem VoV hefur haft spurnir af, t.d. í lækjum og ám í vatnakerfi Seyðisár á Kili og Köldukvísl allri, en eftir því sem ofar dregur er það þó urriði sem einkenir veiðina.

Þarna er aðeins leyfð fluguveiði og öllum fiski er sleppt, líklegast skynsamlegt því stofnar stórbleikju eru sjaldnast stórir þó að einstaklingar séu dreifðir á stóru svæði.