Ár í Djúpinu fara ekki varhluta af vatnsleysinu

Vatnsleysi plagar laxa og veiðimenn víða um land.

Frá því er greint á FB síðu sem Aron Jóhannsson heldur úti um málefni Langadalsár við Djúp, að áin hafi verið ofurseld vatnsleysinu sem hrjáð hefur svo margar þekktar laxveiðiár í landinu frá því að vertíðin hófst. Sömu sögu er að segja um Laugardalsá, hina helstu laxveiðiá Djúpsins.

Á FB síðunni umræddu segir m.a. og er miðað við gærdaginn, 14.7:  „Langadalsáin hefur ekki farið varhluta af þeim náttúruhamförum sem hafa birst í gríðarlegu vatnsleysi undanfarnar vikur. Aðeins eru komnir 8 laxar á land auk nokkurra sjóbleikja. Ekki hefur veiðst lax í ánni síðan 6. júlí og fram að hádegi 14. júlí og er það fáheyrt. Sérstaklega með það í huga að þrælvanir menn hafa verið að veiðum á þessu tímabili. Laxar hafa fundist hálfdauðir af súrefnisleysi undir steinum örskammt frá landi, sem hefur aldrei sést áður hjá viðkomandi veiðimönnum. Smálax hefur þó verið að týnast upp í gegnum teljarann að undanförnu í þessu vatnsleysi sem gæti gefið fyrirheit um betri tíð ef veðurspár ganga eftir en spáð er rysjóttu veðri næstu daga. Sömu sögu er að segja af Laugardalsánni en síðastliðinn þriðjudag voru komnir 4 laxar á land en skv. heimildarmanni þá væri samt lax að ganga laxastigann í súrefnisleysinu og talsvert af laxi bíði í gljúfrunum fyrir neðan stiga, bíðandi eftir rigningu.“

Við þetta má bæta, að tveir afar stórir laxar voru mældir nýverið er þeir skutu sér í gegnum teljara árinnar, en búnaður í honum myndar og mælir lengd. Voru þessir höfðingjar 111 og 105 cm. Slæmu tíðindin eru, að skv veðurkortum á vef Veðurstofunnar virðist rigningarspá morgundagsins ekki ætla að ná norður í Djúp. Seinni partinn á morgun sýna kortin rigningu á Patró þannig að sunnanverðir firðirnir fá skvettu, og ekki veitir af, en gangi spáin eftir fær Djúpið lítið eða ekkert og sýna kortin stöðuna fram að næsta laugardegi.