Sjóbleikjan er spennandi sportfiskur.

Fram hefur komið að þýskur auðkýfingur hefur fest kaup á jörðinni Hellisfjörður sem er í samnefndum eyðifirði á Austfjörðum. Austurfrétt birti fréttina og DV endurbirti hana með tilvísun. Um forríkan þýskan markaðsmann er að ræða og ekki á hreinu hvað hann ætlar sér með jörðina.

Um er ræða 1900 hektrarar sem er dágóð spilda, en jörðin var í eigu Sigurjóns Sighvatssonar og félags í hans eigu þangað til í fyrra að jörðin var auglýst til sölu. Var gengið frá kaupum og sölum í fyrrahaust. Sá þýski heitir Sven Jacoby og eignast hann jörðina/fjörðinn í gegnum félagið Vatnsstein ehf. Hellisfjörður hefur verið í eyði síðan á sjötta áratugnum. Þangað liggur enginn vegur en hægt að komast á leiðarenda með báti og tveimur jafn fljótum. Þetta er dæmigerður austfirskur eyðifjörður með sjóbleikju, fuglalífi og fagurri náttúru. Skv Austurfrétt var Jacoby fyrir austan í vikunni, en vildi ekki ræða áformin sín. Í fyrirtækjaskrá segir að félagið Vatnsstein ehf sé stofnað til að stunda eldi og ræktun í ferskvatni. Því er þetta frétt hér, að Hellisfjarðará þykir prýðisgóð sjóbleikjuá, sérstaklega ós hennar og neðri hluti. Veiðin hefur þó lítið verið nýtt hin seinni ár, en kannski verður nú breyting á því.