
Bróðirinn sótti að og útkoman var glæsileg, en stóri bróðir var bara með svo ótrúlegan fisk að það verður ekki eftir leikið í bráð, allavega varla innan fjölskyldu! En hver veit?

Greint var frá því fyrr í vikunni að Einar Falur Ingólfsson ljósmyndari og blaðamaður á Mogganum hefði sett í og landað 94 cm sjobirtingi í Línustreng í Ytri Rangá í vikunni. Slíkir fiskar eru sjaldséðir, jafnvel í heimsveldi þeirra fiska í Vestur Skaftafellssýslu. Miðað við mælingar sem Einar hafði áður staðið fyrir á 86 cm birtingum, þar sem dýrin vógu 18 pund, þá má ætla að umræddur birtingur hafi ekki vegið minna en 22 pund…og sennilega 23-24 pund.
En nýja fréttin er af „Kidda bróður“ sem leiðsagði Einari og er leiðsögumaður við Ytri Rangá. Já, Kristinn „Veiða“ Ingólfs, er bróðir Einars og rekur veiðileyfasöluvefinn www.veida.is . Í dag gerði hann atlögu að glæsilegum árangri stóra bróður, og á svo til sama stað, setti hann í og landaði öðrum í yfirstærð. Heyrum hvað Kristinn sagði: „Já, birtingar okkar bræðra tóku fluguna svo gott sem á nákvæmlega sama stað – bara nokkrir dagar á milli. Línustrengur í Ytri Rangá. Minn tók Sunray, tommulangan með cone, Einar fékk sinn á Black and Blue var ca. Minn var ca 75 cm langur, rétt um 5 kg, viðurkenni að ég mældi hann ekki eins nákvæmlega og bróðir minn gerði þegar hann veiddi öldunginn sinn..“